Sport

Fremstu blakarar Ísraels leika listir sínar í Digra­nesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikirnir fara fram í íþróttahúsinu í Digranesi um helgina.
Leikirnir fara fram í íþróttahúsinu í Digranesi um helgina. HK Digranes

Karla- og kvennalandslið Íslands í blaki taka í fyrsta sinn þátt í CEV Silver deildinni um helgina. Keppt er í íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi og er karlalandslið Ísraels á meðal gesta. Hávær krafa hefur verið hjá hluta Íslendinga að sniðganga allar keppnir þar sem Ísrael er á meðal keppenda.

Fram kemur á Facebook-síðu Blaksambands Íslands að leit standi yfir að starfsfólki til að standa vaktina hvað varðar boltana, moppur og gæslu.

„Svona leikir fara ekki fram sjálfkrafa og því leitum við til blakfólks um land allt með aðstoð í kringum leikina. Þetta er frábært tækifæri til að sjá landsliðsfólkið okkar taka þetta stóra skref á nýju sviði,“ segir í færslunni á Facebook.

Karlalandsliðið mætir Færeyjum og Ísrael en kvennalandsliðið spilar gegn Lettlandi og Ungverjalandi.

Karlaliðið spilar svo í Færeyjum helgina 24.-26 maí og kvennaliðið í Portúgal. Á síðustu keppnishelginni 31. maí til 2. júní spilar karlalandsliðið í Norður-Makedóníu og kvennaliðið í Georgíu.

Hávær krafa var í samfélaginu um að Ísland tæki ekki þátt í Eurovision sökum þess að Ísrael væri á meðal þátttakenda. Ástæðan er ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem Ísraelar eru taldir hafa drepið á fjórða tug þúsunda Palestínumanna undanfarnar vikur og mánuði.

Þá var mótmælt þegar Breiðablik spilaði gegn Maccabi Tel Aviv í Sambandsdeild Evrópu í nóvember. 

Þá heyrðust sömuleiðis þær raddir að íslenska karlalandsliðið ætti ekki að spila gegn Ísrael í umspili um sæti á Evrópumótinu í sumar.

Svo fór að Ísland tók þátt í Eurovision, Breiðablik spilaði leikinn gegn Maccabi Tel Aviv og karlalandsliðið lagði Ísrael í umspili áður en liðið féll úr leik gegn Úkraínu.

Leikjaplan helgarinnar er eftirfarandi:

Föstudagur 17. maí

16:00 Lettland - Ísland KVK

20:00 Færeyjar - Ísland KK

Laugardagur 18. maí

16:00 Ísrael - Færeyjar KK

20:00 Ungverjaland - Lettland KVK

Sunnudagur 19. maí

15:00 Ísland - Ísrael KK

19:00 Ísland - Ungverjaland KVK




Fleiri fréttir

Sjá meira


×