Flestir dagar hjá Agli Ólafssyni hefjast á gönguferð um Klapparstíginn þar sem hann plokkar í leiðinni upp rusl sem verður á vegi hans. Þessi margbrotni listamaður sem á blómlegan feril að baki í tónlist og leiklist tekur lífinu með bros á vör þótt síðustu misseri hafi hann glímt við Parkinson sjúkdóminn.

„Já það hjálpar mér mikið,“ segir Egill á göngunni. „Ég hreyfi mig alltaf á hverjum degi. Þarf helst að ganga svona tvo til þrjá kílómetra á dag til að vera í þokkalegu standi. Því Parkinn er þannig að hann étur menn upp ef þeir ekki hreyfa sig,“ segir listamaðurinn á meðan hann tínir upp rusl með kló á Klapparstígnum þar sem hann býr.
Egill fer með aðalhlutverkið í Snertingu, nýrri kvikmynd Baltasar Kormáks eftir bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, sem forsýnd var í vikunni og kemur til almennra sýninga rétt fyrir mánaðamót. Þar leikur hann Kristófer, mann yfir miðjum aldri, sem fer yfir hálfan hnöttinn að leita æskuástarinnar.
Snerting, er þetta mynd eftir að þú ert búinn að sjá hana, sem snertir þig sem leikara og heldur þú að hún snerti áhorfendur?
„Ég vona að hún snerti. Hún snerti mig sem leikara. Ég verð að segja að ég tárast nú sjaldan en ég táraðist þarna á frumsýningunni. Kannski bara yfir því hvað lífið er skrýtiðí laginu,“ segir Egill. Sjá má ítarlegt viðtal við hann sem var í Íslandi í dag í spilaranum hér fyrir neðan.