Niðurstaða dómstólsins var birt þann 16. apríl en þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að í málinu hafi verið brotið gegn bæði þriðju grein fyrsta viðauka sáttmálans um réttinn til frjálsra kosninga og þrettándu grein Mannréttindasáttmála Evrópu um skilvirk réttarúrræði.
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eiga forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið í samtali við Alþingi um framhaldið. Áður hefur verið greint frá því að málið sé til skoðunar hjá skrifstofu Alþingis.
Tvær milljónir í bætur
Málinu var vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu af þeim Magnúsi Davíð Norðdahl og Guðmundi Gunnarssyni sem báðir voru í framboði til Alþingis 2021. Guðmundur datt út af þingi eftir endurtalningu en Magnús var aldrei inni. Íslenska ríkinu var gert að greiða þeim báðum um 13 þúsund evrur í bætur sem samsvarar um tveimur milljónum íslenskra króna.
Kvörtun þeirra til dómstólsins laut að annars vegar framkvæmd talningar í kjördæminu og hins vegar að því að þeir hafi ekki haft skilvirka leið til að koma kvörtunum sínum áleiðis.
Lögmaður þeirra, Sigurður Örn Hilmarsson, sagði í samtali við fréttastofu eftir að dómurinn féll að miðað við niðurstöðu dómstólsins yrði að breyta stjórnarskránni á þann hátt að úrskurðarvald í slíkum málum fari frá Alþingi og til dómstóla.
Bjarni heldur áfram vinnu Katrínar
Töluverð vinna hefur verið unnin innan forsætisráðuneytisins allt frá árinu 2018 að breytingum á stjórnarskránni. Á vef stjórnarráðsins má sjá yfirlit aðgerða og funda sem haldnir hafa verið á tímabilinu.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur fram að setja eigi af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. Þá eigi að efna til samstarfs við fræðasamfélagið og halda áfram vinnu við stjórnarskrárbreytingar frá fyrra kjörtímabili.
Vinnan sem þegar hefur verið unnin hefur að mestu verið unnin undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur í forsætisráðuneytinu. Samkvæmt svari frá ráðuneytinu ætlar nýr forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, að halda þeirri vinnu áfram sem hún hóf við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
„Áfram verður unnið með formönnum stjórnmálaflokka að því að móta breytingartillögur sem breið samstaða er um,“ segir að lokum í svari ráðuneytisins.