Fótbolti

„Ég er ekki krafta­verka­maður“

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson tókst hið ómögulega. Aftur.
Freyr Alexandersson tókst hið ómögulega. Aftur. Isosport/Getty Images

„Ég get ekki tekið annað svona ár,“ segir knatt­spyrnu­þjálfarinn Freyr Alexanders­son sem vann mikið af­rek með liði Kortrijk í belgísku úr­vals­deildinni. Af­rek sem gerir Frey að afar eftir­sóttum þjálfara og á hann mikil­vægan fund í dag með stjórn fé­lagsins. Freyr segist ekki vera krafta­verka­maður eins og margir halda fram.

Kortrijk bjargaði sér á ævin­týra­legan hátt frá falli í belgísku úr­vals­deildinni með sigri í fram­lengdum leik gegn Lommel á dögunum. Um mikið af­rek að ræða fyrir liðið og rós í hnappa­gat Freys sem tók við þjálfun Kortrijk í upp­hafi árs og var staðan þá mjög svört.

Ertu krafta­verka­maður Freyr?

„Nei. Ég er vinnu­samur, heiðar­legur og dug­legur,“ svarar Freyr. „Ég er ekki krafta­verka­maður. Ég er mjög stoltur af því sem ég hef náð að af­reka, því sem að ég hef gert. Ég held ég kunni bara að vinna. Ég held það sé það sem ég er.“

Hefur ekki áhuga á frekari fallbaráttu

Freyr er með samning hjá Kortrijk til ársins 2026 og hefur hann öll tromp á hendi sér. En er út­séð með að hann verði á­fram innan raða fé­lagsins?

„Ég á fund með stjórn fé­lagsins í fyrra­málið áður en ég held svo til Dan­merkur,“ segir Freyr í við­tali sem tekið var í gær. Fundurinn mikilvægi því að fara eiga sér stað í dag. 

Freyr Alexandersson tók til hjá Kortrijk og hélt þeim uppi í úrvalsdeild, sem virtist útilokað er hann tók við starfinu.Getty/Nico Vereecken

„Planið er að vera hér á­fram en eðli málsins sam­kvæmt er nafn mitt heitt í Evrópu akkúrat núna. Ég átti fund með um­boðs­manninum mínum áðan því ég hef haldið öllum þessum málum frá mér upp á síð­kastið. Ég mun setjast niður með stjórn Kortrijk og er með mjög skýr skila­boð til þeirra varðandi það hvað ég vil gera hér.

Þau skila­boð hafa verið skýr lengi. Ég vil að við göngum frá þeim málum svo við getum byggt ofan á þetta verk­efni. Ef það er ekki gert þá verður liðið aftur í fall­bar­áttu. Ég hef ekki á­huga á því. Við þurfum því að spýta í lófana ef við ætlum okkur að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera síðast­liðna fimm mánuði.“

 Þarf að hlusta þegar maður er bragð mánaðarins

Freyr finnur fyrir áhuga á sínum kröftum. 

„Það er gott og gaman að fólk hafi áhuga á því sem að maður er að gera. Svo þarf maður bara að vinna vinnuna sína. Það sem á að gerast gerist bara. Ég er hins vegar mjög ánægður þar sem að ég er. Þetta er skemmtilegt verkefni hérna hjá Kortrijk. 

Mér þykir vænt um þetta félag og fólkið hér í kring. Það er fullt af tækifærum hérna. Í dag er ég þjálfari Kortrijk og einbeiti mér að því. En þegar að maður er bragð mánaðarins þá þarf maður allavegana að hlusta.“

Freyr tók við þjálfun Kortrijk í erfiðri stöðu í janúar.Kortrijk

Getur ekki tekið annað svona ár

Eftir að hafa háð fall­bar­áttuslagi og staðið uppi sem sigur­vegari, bæði hjá Lyng­by og nú Kortrijk, er Freyr kominn með nóg af þeirri bar­áttu.

„Ég vil helst bara fá að komast úr þessum fall­bar­áttuslag núna. Ég get ekki tekið annað svona ár. Ég geng fram af mér. Ég hef prófað að vera í liði sem á að vinna titla. Ég gerði það á upp­hafs­árum ferilsins sem þjálfari kvenna­liðs Vals. Það var skemmti­leg pressa sem að fylgdi því. Skemmti­leg reynsla. Það tók líka á en á allt öðru­vísi hátt. Í þeirri stöðu ertu alltaf að fá já­kvæða orku inn í leik­manna­hópinn. Inn í þig sjálfan. Ég er alveg til í að fara takast á við eitt­hvað svo­leiðis fljót­lega aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×