Leikjavísir

Ghost of Tsushima: Kominn út á PC og enn geggjaður

Samúel Karl Ólason skrifar
Glöggir lesendur taka ef til vill eftir blóðinu á sverðinu hans Jin. Þarna var ég nýbúinn að ganga frá þessum stóra Mongóla en hann átti bara eftir að falla í jörðina.
Glöggir lesendur taka ef til vill eftir blóðinu á sverðinu hans Jin. Þarna var ég nýbúinn að ganga frá þessum stóra Mongóla en hann átti bara eftir að falla í jörðina.

Ghost of Tsushima er ekkert verri á PC en hann var á PS5. Þetta er enn einn af mínum uppáhaldsleikjum. Fáir leikir hafa jafn gott andrúmsloft og þessi þar sem berjast þarf gegn hjörðum Mongóla, í einstöku umhverfi.

Leikurinn fjallar um lávarðinn og samúræjann unga Jin Sakai og baráttu hans og annarra gegn innrás Kublai Khan á þrettándu öldinni. Eftir að gjörtapa fyrstu orrustunni gegn mongólunum og deyja næstum því þarf Jin að leggja gildi samúræja til hliðar og berjast gegn innrásinni úr skuggunum.

Leikurinn kom fyrst út árið 2020 og þá eingöngu fyrir PS5. Eins og með marga aðra slíka leiki sem Sony hefur gert í gegnum árin hefur hann einnig verið gefinn út á PC, nú nokkrum árum seinna.

Þetta hefur Sony gert með God of War, Horizon Zero Dawn, Days Gone, Spider-Man og aðra leiki með góðum árangri.

Ég hef átt í basli með að skrifa eitthvað frumlegt um þessa leiki á árum áður, þar sem maður hefur spilað þetta allt áður og ef PC-útgáfan virkar sem skyldi, er voða lítið nýtt að segja. Ghost of Tsushima er enn rosalega góður leikur. Það er bara eins og það er.

Í sporum Jin er spilurum gefið val á því að spila sem ninjur eða samúræjar og sníða hæfileika Jin eftir hentisemi. Ninjur laumast um í háu grasi og á húsþökum og drepa einangraða Mongóla þar til þeir eru allir dauðir. Samúræjar stinga menn ekki í bakið heldur berjast við þá eins og heiðursmenn.

Þess vegna deyja þeir nánast allir í upphafi leiksins.

PC útgáfu GoT fylgir allar viðbætur við leikinn auk ýmissa uppfærslna sem varða grafík og annað.

Leikurinn var upprunalega gerður af Sucker Punch en svo voru það starfsmenn Nixxes sem tóku leikinn í gegn fyrir PC útgáfuna, eins og þeir hafa gert við aðra leiki frá Sony á undanförnum árum. PC-útgáfan er mjög slípuð og fín. Ég hef ekki orðið var við neina bögga til að tala um.

Grafíkvél GoT er nokkurra ára gömul og það sést á köflum en listrænn stíll leiksins er alltaf það sem stendur upp úr. Það er einnig hægt að leika sér með andrúmsloft GoTs og til dæmis spila leikinn eins og gamla svarthvíta samúræjamynd. Hafa talsetningu leiksins á japönsku og sérstakan kvikmynda-filter.

Áhugasamir geta kynnt sér yfirferð sérfræðinganna hjá Digital Foundry um tæknilegar hliðar Ghost of Tsushima og samanburð við PS5 útgáfuna hér að neðan.

Fyrir utan andrúmsloftið stendur bardagakerfið enn uppúr sem einn af stærstu kostum GoT. Þetta skrifaði ég árið 2020:

Það eru margar tegundir óvina í GoTs, eins og í öllum svipuðum leikjum. Sumir bera lítil sverð, aðrir stór. Svo eru gaurar með lítil spjót og aðrir stór. Bogamenn, risavaxnir karlar með axir og svo mætti lengi telja.

Allir þessir karlar berjast með mismunandi hætti og Jin þarf að læra mismunandi bardagaaðferðir (e. Stance) til að takast á við þennan fjölbreytileika. Í stórum bardögum þarf maður oft að skipta um stance, eftir því hvernig óvinir maður er að berjast við á tilteknum tíma, því oftar en ekki er Jin umkringdur af margs konar óvinum.

Jin getur varist árásum með því að koma sér undan þeim eða með því að bera þau af sér með sverði sínu. Sé bæði tímasett vel getur Jin skilað af sér gagnárás sem veldur miklum skaða. Það er fátt skemmtilegra í GoTs en að ná þessu og þar með vera ógeðslega töff.

Þetta stendur enn að mestu leyti. Við spilun GoT hef ég einsett mér að notast við lyklaborð og mús í stað þess að tengja fjarstýringu við tölvuna og það getur verið mikið vesen. Það eru margir takkar sem þarf að ýta á og oft lítill tími til þess. Mér finnst betra að spila með fjarstýringu, í flestum tilfellum. Þegar maður er að skjóta Mongóla með boga er mun betra að nota lyklaborð og mús.

Samantekt-ish

Ghost of Tsushima hætti ekki að vera frábær leikur við það að vera gefinn út á PC. Þar hjálpar mikið til að þessi útgáfa leiksins var mjög vel gerð og fínpússuð en það skiptir höfuðmáli í tilfellum sem þessum. Ef þú lesandi kær hefur ekki spilað GoT enn, mæli ég með því að þú breytir því.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem ég tók í leiknum á dögunum. Leikurinn hefur mjög gott kerfi fyrir myndatöku.

Jin er mikill og öflugur bardagakappi.

Jin hefur gaman af því að klifra upp á há hús og virða Tsushima fyrir sér. Sjá má að norðrið brennur.

Ribbaldar nota sér iðulega óreiðu eins og þá sem innrásir skapa. Jin refsaði þessum ribböldum harkalega.

Jin hefur gaman af því að hlusta á góða tónlist.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.