Körfubolti

Fotis og Nat-vélin saman undir körfunni hjá Hamri næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fotis Lampropoulos boðinn velkominn í Hamar af Tryggva formanni.
Fotis Lampropoulos boðinn velkominn í Hamar af Tryggva formanni. @hamarkorfubolti

Hamarsmenn hafa gengið frá samningum við gríska körfuboltamanninn Fotios Lampropoulos sem mun nú færa sig úr Subway deildinni niður í fyrstu deildina.

Hamar féll úr Subway-deildinni í vetur en Fotios Lampropoulos hefur spilað með nágrönnum þeirra í Þór úr Þorlákshöfn undanfarin tímabil.

Fotis hefur nú spilað þrjú tímabil á Íslandi, fyrst eitt með Njarðvík og svo tvö með Þór Þorlákshöfn. Hann kom hingað undir lok ferilsins eftir að spilað lengi í nokkrum af bestu deildum Evrópu.

Lampropoulos heldur upp á 41 árs afmælið sitt 11. september næstkomandi. Á síðasta tímabili var hann með 7,2 og 5,1 fráköst að meðaltali á 17,0 mínútum í leik. Hann skoraði 15,4 stig í leik á fyrsta tímabili á Íslandi og 14,5 stig í leik á fyrsta tímabilinu með Þór.

Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Nat-vélin, hefur einnig framlengt samning sinn við Hamarsliðið en hann hefur verið mikilvægasti leikmaður Hamarsliðsins síðan að hann kom aftur heim í Hveragerði.

Ragnar verður 33 ára gamall í haust en hann kom aftur til Hamars árið 2022 og hjálpaði liðinu upp í úrvalsdeildina. Í vetur var hann með 11,9 stig, 10,3 fráköst og 1,6 varin skot að meðaltali í leik í Subway-deildinni.

Hamarsmenn hafa einnig samið aftur við Björn Ásgeir Ásgeirsson, annan öflugan leikmann liðsins. Það er því ljóst að liðið ætlar sér að endurheimta úrvalsdeildarsætið sitt strax næsta vor.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Hamars og þjálfarinn Halldór Karl Þórsson hafa einnig skrifað undir samning um áframhaldandi samstarf til ársins 2026.

Það verður vissulega óárennilegt að vaða á teiginn hjá Hamarsmönnum næsta vetur með Fotis og Nat-vélina saman undir körfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×