Fótbolti

Evrópudeildarmeistari sleit krossband í lokaleiknum og missir af EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Svekkjandi endir á frábæru tímabili fyrir hinn tvítuga Scalvini.
Svekkjandi endir á frábæru tímabili fyrir hinn tvítuga Scalvini. Marco Luzzani/Getty Images

Giorgio Scalvini, leikmaður Atalanta og ítalska landsliðsins, sleit krossband í síðasta leik tímabilsins og missir af Evrópumótinu í sumar.

Scalvini er tvítugur miðvörður sem kom við sögu í 44 leikjum hjá Atalanta á tímabilinu. Hann spilaði seinni hálfleikinn í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þegar Atalanta eyðilagði fullkomið tímabil Bayer Leverkusen og lyfti titlinum.

Hann var neyddur af velli á 84. mínútu í síðasta leik tímabilsins þegar Atalanta mætti Fiorentina í gær. Félagið staðfesti svo krossbandsslit og óskaði honum góðs bata á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Scalvini er annar miðvörðurinn sem ítalska landsliðið missir út fyrir EM en fyrir fjórum dögum þurfti Francesco Acerbi að draga sig úr hópnum. Federico Gatti kom inn í stað Acerbi en staðgengill Scalvini hefur ekki verið tilkynntur.

Ítalía er ríkjandi Evrópumeistari og hefur mótið í sumar á leik gegn Albaníu þann 15. júní. Fyrir það fara fram tveir æfingaleikir gegn Tyrklandi og Bosníu-Hersegóvínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×