Enski boltinn

Hareide yngri orðinn yfir­­­maður í­­þrótta­­mála hjá ensku C-deildar­liði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bendik og Åge Hareide.
Bendik og Åge Hareide. @BHAREIDE

Bendik Hareide, sonur Åge Hareide – landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er orðinn yfirmaður íþróttamála hjá enska C-deildarliðinu Burton Albion.

Frá þessu greindi Burton í dag en breytingar urðu á eignarhaldi félagsins þegar fjárfestingahópurinn Nordic Football Group keypti hlutabréf fráfarandi formanns Ben Robinson. Í frétt Fótbolti.net kemur fram að fjárfestar NFG komi frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi.

Fráfarandi formaðurinn Robinson hefur verið við stjórnvölin hjá Burton lengi vel en eftir slakan árangur undanfarin ár ákvað hann að kalla þetta gott og selja hlutabréf sín í félaginu.

Ole Jakob Strandhagen kemur í hans stað sem formaður Burton, Tom Davidson verður stjórnarformaður, títtnefndur Bendik verður yfirmaður íþróttamála og Kevin Skabo tekur við stöðu viðskiptastjóra.

Bendik komst í fréttir hér á landi skömmu eftir að faðir hans tók við A-landsliði karla. Kom hann meðal annars hingað til lands að horfa á landsliðið spila.

Hann mun nú vera vant við látinn að byggja upp lið Burton sem hefur séð bjartari daga. Liðið endaði í 20. sæti ensku C-deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð.

Bendik hefur verið viðloðinn norska stórliðið Molde þar sem hann var meðal annars hluti af leikmannaþróun akademíu félagsins sem og hann var um tíma í stjórn félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×