Körfubolti

Tröll­vaxinn tólf ára leik­maður nýjasta undra­barn Barcelona

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hinn 208 sentimetra hái Mohamed Dabone var valinn verðmætasti leikmaðurinn á minniboltamóti fyrr á árinu.
Hinn 208 sentimetra hái Mohamed Dabone var valinn verðmætasti leikmaðurinn á minniboltamóti fyrr á árinu.

Mohamed Dabone er nýjasta undur körfuboltaheimsins, aðeins 12 ára gamall er hann þegar rúmir tveir metrar á hæð og farinn að spila langt upp fyrir eigin aldur í EuroLeague með Barcelona.

Klippur af fyrsta leik Dabone hjá Barcelona hefur farið sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Yfirburðir hans gegn mun eldri mönnum eru hreint út sagt ótrúlegir.

Eðlilega vakna spurningar um aldur Dabone, það þykir ótrúlegt að hann sé aðeins 12 ára gamall.

Það virðist ekki vefjast fyrir Barcelona og EuroLeague, en þar er hann opinberlega skráður sem 12 ára barn, 208 sentimetra á hæð. Hann þreytti frumraun sína með Barcelona í EuroLeague 18 ára og yngri leikmanna á dögunum, þar skoraði hann 21 stig og greip 6 fráköst.

Dabone kemur frá Búrkína Fasó í vestur Afríku. Þrátt fyrir að vera aðeins 12 ára gamall, fæddur þann 21. október 2011 samkvæmt EuroLeague, hefur hann þegar ratað á lista NBA njósnara.

Á vinsælli vefsíðu sem heldur utan um unga og efnilega leikmenn er Dabone lýst sem „ógnvekjandi íþróttamanni með stórkostlega samhæfingu, snerpu og hraða. Tilfinning hans fyrir leiknum er fín, með mjúkar snertingar og mun meira en bara afburða íþróttamaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×