Erlent

Sá fyrsti til að greinast með H5N2 lést af völdum veirunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um þessar mundir er vel fylgst með útbreiðslu H5N1 í Bandaríkjunum en leyfar af fuglaflensu hafa fundist í mjólk úti í búð eftir að veiran barst í nautgripi.
Um þessar mundir er vel fylgst með útbreiðslu H5N1 í Bandaríkjunum en leyfar af fuglaflensu hafa fundist í mjólk úti í búð eftir að veiran barst í nautgripi. Getty/Boston Globe/David L. Ryan

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur greint frá andláti af völdum fuglaflensuveirunnar H5N2 sem átti sér stað í apríl síðastliðnum. Um var að ræða fyrsta einstaklinginn sem hefur greinst með umrætt afbrigði fuglaflensu.

Einstaklingurinn, 59 ára karlmaður, var lagður inn á sjúkrahús í Mexíkóborg með hita, mæði, ógleði og niðurgang. Þá er hann sagður hafa þjáðst af almennri vanlíðan. Hann lést 24. apríl og var í kjölfarið greindur með H5N2.

Ekki er vitað hvernig maðurinn smitaðist en afbrigði hefur greinst í alifuglum í Mexíkó. Þá er ekki vitað til þess að maðurinn hafi smitað aðra og allir í kringum hann greinst neikvæðir fyrir veirunni.

Maðurinn glímdi við undirliggjandi sjúkdóma.

Vísindamenn fylgjast nú vel með því hvort fuglaflensuveirur séu að berast í menn og á milli manna en það gæti bent til þess að smithæfni þeirra sé að aukast. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segja almenningi í Mexíkó hins vegar ekki stafa ógn af fuglaflensu eins og er.

Andrew Pekosz, sérfræðingur við Johns Hopkins University, segir fuglaflensuveirur af tegundinni H5 hafa fundist mun oftar í spendýrum en aðrar tegundir. Mikilvægt sé að fylgjast náið með þegar þær greinast í mönnum, þar sem hvert smit sé tækifæri fyrir veiruna til að þróast og auka smithæfni sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×