Bíó og sjónvarp

Eltihrellirinn höfðar mál gegn Netflix

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fiona Harvey hefur áður talað um reynslu sína með Gadd í fjölmiðlum.
Fiona Harvey hefur áður talað um reynslu sína með Gadd í fjölmiðlum. Vísir/Samsett

Skosk kona sem segist vera innblásturinn að eltihrellinum Mörthu Scott í vinsælu þáttunum Baby Reindeer úr smiðju Netflix hefur höfðað mál á hendur streymisveitunni. Hún krefst 170 milljóna dala í skaðabætur sem nemur um 24 milljörðum íslenskra króna.

Málið var lagt fram í Kaliforníu í gær. Fiona Harvey sakar Netflix meðal annars um ærumeiðingar

Þáttaröðin, sem hefur notið mikilla vinsælda, er skrifuð af Richard Gadd og byggir að hans sögn á sannri sögu. Fiona Harvey hefur áður ratað í fjölmiðla og neitað því að vera eltihrellir.

Gadd hefur fullyrt að yfir fjögurra ára tímabil hafi Harvey sent honum ríflega 41 þúsund töluvpósta, tekið up 350 klukkustundir í talhólfi hans, skrifað um hann 744 tíst, sent honum 46 Facebook skilaboð og 106 síður af bréfum. Harvey neitar þessu.

Í málshöfðuninni segir að Netflix og Richard Gadd, sem skrifaði og fer með aðalhlutverk þáttaraðanna, hafi eyðilagt orðspor og líf Harvey. Hún segist hafa fengið fjölda líflátshótana síðan þáttaröðin kom út í apríl síðastliðnum.

„Hinir stefndu sögðu þessar lygar og hættu ekki, því það var betri saga en sannleikurinn, og betri sögur græða peninga,“ segir í málshöfðuninnni.

„Við ætlumst að verjast þessu máli af fullum krafti og stöndum með rétti Gadd til að segja þessa sögu,“ segir talsmaður Netflix í fréttayfirlýsingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.