Körfubolti

Frið­rik tekur við keflinu í Kefla­vík

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson er nýr þjálfari Íslands-, deildar- og bikarmeistara Keflavíkur.
Friðrik Ingi Rúnarsson er nýr þjálfari Íslands-, deildar- og bikarmeistara Keflavíkur. Keflavík Karfa

Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta. Hann skrifar undir tveggja ára samning við félagið.

Friðrik á að baki langan og farsælan feril sem þjálfari á Íslandi, en sá ferill hófst árið 1988. Hann hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið Njarðvíkur og Grindavíkur ásamt því að hafa verið bæði aðal- og aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Hann tók sér svo frí frá þjálfun frá 2007-2014 og hefur síðan þá þjálfað karlalið Njarðvíkur, Keflavíkur, Þórs Þorlákshafnar og ÍR þar sem hann lét af störfum árið 2022.

Friðrik tekur við góðu búi af Sverri Þór Sverrissyni í Keflavík, enda er kvennaliðið handhafi allra þriggja titlana sem í boði eru í íslenskum körfubolta. Liðið varð deildarmeistari með nokkrum yfirburðum og tryggði sér einnig bikar- og Íslandsmeistaratitilinn.

Keflvíkingar greindu einnig frá því á sama tíma að karlalið félagsins hafi ákveðið að framlengja samningi sínum við Magnús Þór Gunnarsson, Magga Gun.

Maggi kom inn í þjálfarateymi Keflvíkinga skömmu áður en Keflvíkingar tryggðu sér bikarmeistaratitilinn og hefur verið Pétri Péturssyni, þjálfara liðsins, innan handar. Samstarf þeirra virðist hafa gengið vel og Maggi hefur því skrifað undir tveggja ára samning við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×