Enski boltinn

Van Gaal hrósar Liverpool fyrir að ráða Slot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arne Slot gerði gott mót hjá Feyenoord.
Arne Slot gerði gott mót hjá Feyenoord. getty/Jeroen van den Berg

Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Liverpool hafi tekið rétta ákvörðun með því ráða Arne Slot sem stjóra liðsins.

Slot tók formlega við störfum hjá Liverpool 1. júní. Hann kemur í stað Jürgens Klopp sem stýrði liðinu í níu ár. Á þeim tíma vann Liverpool allt sem hægt var að vinna.

Slot kom til Liverpool frá Feyenoord sem hann stýrði í þrjú ár. Hann gerði liðið að Hollandsmeisturum í fyrra.

„Þetta er stórt starf því Jürgen Klopp gerði það frábærlega. Hann er arftakinn og það er alltaf erfiðara. En hann er tæknilega góður þjálfari,“ sagði Van Gaal.

„Í augnablikinu er hann ásamt Peter Bosz besti tæknilegi þjálfarinn frá Hollandi. Svo var hann laus þannig ég held að Liverpool hafi tekið mjög góða ákvörðun.“

Óvíst er hvort Slot verði eini hollenski stjórinn í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Staða landa hans hjá United, Erik ten Hag, er óljós en forráðamenn félagsins íhuga nú hvort þeir eigi að halda honum í starfi eða láta hann fara.

Van Gaal stýrði United um tveggja ára skeið. Undir hans stjórn vann liðið ensku bikarkeppnina 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×