Körfubolti

Mavericks dauðmóðir og Celtics taka tveggja leikja for­ystu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Luka Doncic var alveg sprunginn undir það síðasta.
Luka Doncic var alveg sprunginn undir það síðasta. Maddie Meyer/Getty Images

Boston Celtics tóku afgerandi tveggja leikja forystu í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar með 105-98 sigri gegn Dallas Mavericks í nótt.

Mavericks byrjuðu leikinn nokkuð vel og leiddu fyrsta leikhlutann en Celtics voru aldrei langt undan. Þegar út í þriðja leikhlutann var haldið höfðu liðin skipst nokkuð jafnt á því að taka forystuna. Þá áttu Celtics frábæran kafla og fóru úr þriggja stiga í þrettán stiga forystu, 80-67 þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum.

Sá fjórði var ágætlega fjörugur en Celtics voru allan tímann í bílstjórasætinu. Héldu Mavericks í hæfilegri fjarlægð og hleyptu lítilli spennu að. Forysta Celtics minnkaði mest niður í 5 stig þegar rúm mínúta var eftir en nær komust þeir ekki, lokatölur 98-105.

Luka Doncic var ólíkur sjálfum sér og virkaði algjörlega örmagna undir lokin. Skotin stutt, átta tapaðir boltar og fjögur vítaskot í leiknum sem geiguðu hjá honum. Í fjórða leikhluta hitti hann aðeins einu af sex skotum sínum.

Það verður hins vegar ekkert tekið af varnarleik Celtics manna sem lokuðu virkilega vel á bæði Doncic og Kyrie Irving, lang hættulegustu menn Mavericks. 

Nú verður haldið til Dallas þar sem Mavericks bjóða Celtics heim næstu tvo leiki. Þeir fara fram klukkan 00:30 aðfaranótt fimmtudags og aðfaranótt laugardags. Stöð 2 Sport verður með upphitun og beina útsendingu frá miðnætti. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×