Atvinnulíf

Að sækja um starf eftir upp­sögn

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hugarfarið okkar getur skipt sköpum í atvinnuleit eftir að okkur er sagt upp. Þótt enginn vilji upplifa þessar aðstæður, eru uppsagnir þó fylgifiskur atvinnulífs og því skiptir miklu máli að líta á það sem hvert annað verkefni að sækja um ný störf, án þess að upplifa okkur í vörn eða ótta.
Hugarfarið okkar getur skipt sköpum í atvinnuleit eftir að okkur er sagt upp. Þótt enginn vilji upplifa þessar aðstæður, eru uppsagnir þó fylgifiskur atvinnulífs og því skiptir miklu máli að líta á það sem hvert annað verkefni að sækja um ný störf, án þess að upplifa okkur í vörn eða ótta. Vísir/Getty

Það er eðlileg líðan að fara í smá vörn eftir að hafa verið sagt upp í starfi. Því auðvitað gerir ekkert okkar ráð fyrir að starfslokum beri þannig að.

En þetta er nú samt sem áður fylgifiskur atvinnulífsins og oftar en ekki eru vel skiljanlegar ástæður fyrir því, að akkúrat þú misstir starfið þitt.

Spurningin er hins vegar: Hvernig getum við sótt um nýtt og spennandi starf, án þess að upplifa okkur sjálf í vörn.

Því atvinnuleit kallar á sóknarhugarfarið.

Hér eru nokkur góð ráð, en þau miðast við að uppsögnin þín sé opinber og við því að hefja nýja atvinnuleit án þess að hún sé eitthvert leyndarmál.

Settu tilfinningarnar til hliðar

Þegar fyrirtæki segir upp fólki, er það oftast að gefnu tilefni. Til dæmis hagræðingar, samdráttur í tekjum, breytingar á skipulagi eða einhverjar ytri aðstæður sem gera það að verkum að uppsagnir eru óhjákvæmilegar.

Þegar við setjumst niður til að ákveða næstu skref, er mikilvægt að setja tilfinningarnar okkar til hliðar varðandi það að hafa misst vinnuna. 

Að setja þær til hliðar, þýðir þó ekki að þú vinnir í þeim tilfinningum eins og þú mögulega þarft á að halda. Heldur frekar að þegar kemur að nýrri atvinnuleit, horfum við á atvinnuleitina eins og hvert annað verkefni sem við þurfum að takast á við og án þess að vera í vörn eða ótta.

Áður en við kveðjum gamlan vinnustað

Áður en við hættum í vinnunni okkar, er ágætt að huga að því hvað mögulega við gætum tekið með okkur þaðan. 

Góð meðmæli eru æskileg en eins er fínt að ræða við vinnufélagana opinskátt, hvort þeir viti um eitthvað spennandi eða lumi á góðum ráðum. 

Stundum eru mannauðsdeildir líka tilbúnar til að leggja fram aðstoð og þá er um að gera að nýta það.

Nafnalisti og góð ráð

Eitt sem er líka ágætt að gera, er að skrifa niður nafna- og tengslalista og ákveða síðan hvort það eru einhverjir aðilar á þessum lista, sem mögulega gætu veitt aðstoð við atvinnuleit. Oft er það nefnilega þannig að tengslanetið okkar er meira tilbúið en við höldum, að leggja fólki lið. Til dæmis að benda okkur á aðila til að ræða við, fyrirtæki til að sækja um starf hjá eða að leggja inn gott orð fyrir okkur. Vanmetum ekki, þá aðstoð sem við oft getum fengið og lítum á það sem jákvætt að eiga fólk að, sem er tilbúið til að leggja okkur lið. Hversu frábært er það?!

Að vanda alla vinnu

Loks er að vanda alla vinnu þegar kemur að ferilskránni, kynningabréfi eða öðrum gögnum sem fylgja þarf þegar að við sækjum um starf.

Svo mikilvæg er þessi vinna, að öll okkar ættum endilega að afla okkur upplýsinga um hvernig best er að ganga frá upplýsingum og gögnum þannig að draumastarfið verði líklegt.

Að rýna í okkar eigin hug er líka góð leið, til dæmis að velta því fyrir okkur hvað okkur langar mest til að fara að gera næst? Er það á sama vettvangi eða í einhverju nýju og öðru en áður? Í hvers konar starfi myndu styrkleikar okkar nýtast best? Og hvað finnst okkur skemmtilegast að vinna við?

Að æfa samtalið

Það er gott fyrir alla að undirbúa okkur undir atvinnuviðtal. En þegar við sækjum um starf í kjölfar uppsagnar, eigum við það til að fókusera um of á hvernig við eigum að skýra þá uppsögn út.

Svarið við þessu er einfalt: Í atvinnuviðtali er best að koma hreint fram en þó þannig að við hallmælum ekki fyrri vinnuveitanda né förum út í einhver smáatriði. Best er að búa til 1-2 stuttar setningar sem skýra út breytingarnar og hvernig þær eru tilkomnar og æfa okkur síðan í því að segja frá því með bros á vör og augljóslega tilbúin í nýjar og spennandi áskoranir. Því þannig viljum við að okkar næsti vinnustaður upplifi okkur.

Þegar ein dyr lokast…. opnast aðrar

Síðast en ekki síst þurfum við að muna að þegar ein dyr lokast, opnast aðrar. Og að alltaf birtir til á ný. Öll þessi gömlu og góðu orðatiltæki eiga vel við í aðstæðum sem þessum, enda staðreynd að oftar en ekki kemur eitthvað virkilega gott út úr breytingum og jafnvel betra en við áttum von á. 

Til þess að svo verði, skiptir hins vegar mestu máli að við séum þannig þenkjandi að jákvæðnin hjálpi okkur sem mest áfram og það hvernig við sjáum fyrir okkur að breytingarnar verði á endanum okkur til framdráttar: Sem manneskju og í starfsframa.

Gott er að setja okkur markmið um að reyna sem mest að vera jákvæð gagnvart breytingunum, þannig að óttatilfinningin nái ekki tökum á okkur eða að höfnunin sem við upplifðum í kjölfar uppsagnarinnar, fari ekki að tala til okkar persónulega. 

Munum að uppsagnir og breytingar á starfi eru fylgifiskur atvinnulífsins og að í fæstum tilfellum snýst uppsögn um persónur og leikendur þeirra sem missa starfið, heldur eitthvað allt, allt, annað.


Tengdar fréttir

Góð ráð: Í atvinnuleit eftir fimmtugt

Það getur verið nánast óhugnanleg tilhugsun að leita sér að nýju starfi eftir fimmtugt. Því eins og umræðan er, virðist allt benda til þess að eftir miðjan aldur geti atvinnuleit orðið sérstaklega krefjandi.

Í vinnu eða atvinnuleit: Ekki birta of mikið á samfélagsmiðlum

Við erum sjaldan jafn dugleg að birta myndir á samfélagsmiðlunum og þegar að við erum í sumarfríi. Enda skemmtilegt að sjá hvert fólk er að ferðast og hvað það er að gera. En það eru margar ástæður fyrir því að fólk ætti að forðast að birta of mikið af myndum, of oft eða hvaða myndir sem er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×