Innlent

Fækkar í Þjóð­kirkjunni og fjölgar í Sið­mennt

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Skráðum meðlimum í Þjóðkirkjunni fækkaði um 521 frá 1. desember 2023 til 1. júní 2024.
Skráðum meðlimum í Þjóðkirkjunni fækkaði um 521 frá 1. desember 2023 til 1. júní 2024. Vísir/Vilhelm

Skráðum einstaklingum í Þjóðkirkjunni fækkaði um 520 á tímabilinu 1. desember 2023 til 1. júní 2024. Mesta fjölgunin í trú- og lífsskoðunarfélögum var hjá Siðmennt, þar sem meðlimum fjölgaði um 121. Mesta hlutfallslega fjölgunin var hjá Samfélagi Ahmadiyya-múslima á Íslandi, eða um 28,6 prósent. Skráður fjöldi þeirra fór úr sjö í níu, og eru þeir þriðja fámennasta trúfélag landsins.

Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár.

Þjóðkirkjan er ennþá langstærsta trú- og lífsskoðunarfélag landsins, en hún taldi 225.382 meðlimi 1. júní 2024. Þar á eftir kemur Kaþólska kirkjan með 15.395 meðlimi og í þriðja sæti yfir fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.990 skráða meðlimi.

Fríkirkjan í Hafnarfirði er fjórða stærsta trú- og lífsskoðunarfélagið og telur um 7.686 meðlimi, en þeim fjölgaði um 52 frá 1. desember 2023. Ásatrúarfélagið fylgir þar á eftir með 6.088 meðlimi, en þeim fjölgaði um 102 á sama tímabili. Skráðir meðlimir í Siðmennt eru 5.911.

Hér má sjá töflu yfir skráða meðlimi í trú- og lífsskoðunarfélög.

30.792 skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga

Alls voru 30.792 skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga sem er 0,8 prósent hækkun frá 1. desember 2023. Þá voru 87.161 með ótilgreinda skráningu, þ.e. höfðu ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- og lífsskoðunarfélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×