Erlent

Banana­risi á­byrgur fyrir morðum kólumbískrar dauða­sveitar

Kjartan Kjartansson skrifar
Chiquita er ekki hvað síst þekkt fyrir banana. Fyrirtækið greiddi kólumbískri dauðasveit á 10. áratugnum.
Chiquita er ekki hvað síst þekkt fyrir banana. Fyrirtækið greiddi kólumbískri dauðasveit á 10. áratugnum. Vísir/Getty

Fjölþjóðaávaxtafyrirtækið Chiquita þarf að greiða fjölskyldum fólks sem var myrt af vopnaðri sveit manna í Kólumbíu tugi milljóna dollara eftir að bandarískur dómstóll dæmdi það bótaskylt fyrir að hafa fjármagnað sveitina.

Átta kólumbískar fjölskyldur sem áttu ástvini sem féllu fyrir hendi Sameinuðu sjálfsvarnarsveita Kólumbíu (AUC) höfðuðu einkamál á hendur Chiquita eftir að fyrirtækið játaði sig sekt um að fjármagna sveitina árið 2007, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpins BBC.

Bandarísk stjórnvöld skilgreindu AUC sem hryðjuverkasamtök á þeim tíma sem Chiquita lét fé af hendi rakna til sveitarinnar. Liðsmenn AUC frömdu mannréttindabrot og myrtu meðal annars fólk sem var grunað um tengsl við vinstrisinnaðar skæruliðasveitir. Verkalýðsfélagar og starfsmenn á bananaekrum voru á meðal fórnarlamba hennar.

Alríkisdómstóll í Suður-Flórída komst að þeirri niðurstöðu að Chiquita væri bótaskylt vegna dauða átta manna og dæmdi það til þess að greiða ættingjunum 38,3 milljónir dollara í bætur, jafnvirði meira en 5,3 milljarða íslenskra króna.

Talsmenn Chiquita segja að fyrirtækið ætli að áfrýja niðurstöðunni þar sem kröfurnar á hendur því ættu ekki við nein lagaleg rök að styðjast. Fyrirtækið hélt því fram á sínum tíma að þáverandi leiðtogi AUC hefði kúgað fé út úr því með hótunum um að beita starfsmenn þess ofbeldi. Fyrirtækið gaf AUC hátt í tvær milljónir dollara frá 1997 til 2004.

Stefnendurnir sökuðu Chiquita aftur á móti um að ganga í bandalag við AUC á tíma sem fyrirtækið færði út kvíanar á svæði sem sveitin réði.

Önnur réttarhöld í einkamáli á hendur Chiquita á að hefjast í Bandaríkjunum í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×