Fótbolti

Sleikti sólina á snekkju en þurfti svo að drífa sig á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Maatsen hefur notið lífsins á snekkju við strendur Grikklands undanfarna daga.
Maatsen hefur notið lífsins á snekkju við strendur Grikklands undanfarna daga. instagram / @maatsen_

Ian Maatsen hefur verið kallaður inn í hollenska landsliðshópinn fyrir Evrópumótið í Þýskalandi og mun því ekki lengur geta sleikt sólina á snekkju eins og hann hefur gert undanfarna daga. 

Miðjumennirnir Frenkie De Jong og Teun Koopmeiners þurftu báðir að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. 

Maatsen er fjölhæfur leikmaður, iðulega vinstra megin sem bakvörður eða vængmaður, og átti frábært tímabil með Borussia Dortmund en var mjög óvænt ekki valinn í hollenska landsliðshópinn. 

Hann ákvað því að fara beint eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar til Grikklands og hefur undanfarna níu daga unað sér vel á þilfari Hermes snekkju.

Eftir að hann var kallaður til hópsins yfirgaf hann Grikkland um leið og kostur var á. Hann hitti svo hollenska landsliðið í æfingabúðum þeirra í Wolfsburg núna síðdegis, þar er spáð súld og skýjum. 

Maatsen er ekki miðjumaður að upplagi eins og hinir tveir sem drógu sig úr hópnum. Það er því orðið frekar þunnskipað á miðjunni hjá Hollendingum.

Holland er í D-riðli á mótinu ásamt Frakklandi, Póllandi og Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×