Innlent

Skýra þurfi stöðu ríkis­sátta­semjara

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Ástráður Haraldsson, var skipaður ríkissáttasemjari í júlí á síðasta ári.
Ástráður Haraldsson, var skipaður ríkissáttasemjari í júlí á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Taka þarf skýrari afstöðu til stjórnsýslulegrar stöðu ríkissáttasemjara að mati umboðsmanns Alþingis. Nauðsynlegt sé að skýra hvort að um sjálfstætt stjórnvald sé að ræða eður ei. 

Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis sem embættið hefur sent til bæði forseta Alþingis og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra. 

Ekki hægt að kæra ákvörðun ríkissáttasemjara

Ábending umboðsmanns kemur í kjölfar kvörtunar yfir frávísun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru stéttarfélags er laut að ákvörðun ríkissáttasemjara um að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. 

Frávísun ráðuneytisins byggðist á að ákvörðun ríkissáttasemjara teldist ekki sem stjórnvaldsákvörðun og því ekki heimilt að kæra hana. Umboðsmaður féllst á efnislega niðurstöðu í málinu en áréttaði þó að afgreiðsla ráðuneytisins væri ekki í nægilega góðu samræmi við kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti.

Þurfi að skýra stöðuna í lögum

„Með hliðsjón af málsatvikum bendir umboðsmaður á að tilefni kunni að vera til að mæla skýrar fyrir í lögum um stjórnsýslulega stöðu ríkissáttasemjara. 

Þótt í opinberri umræðu hafi í sumum tilvikum verið gengið út frá því að ríkissáttasemjari væri sjálfstætt stjórnvald verði slík fortakslaus ályktun þannig ekki dregin af gildandi lögum,“ segir í tilkynningu á vef umboðsmanns Alþingis. 

Umboðsmaður vísar jafnframt til meginreglunar um stjórnskipulega ábyrgð og yfirstjórn ráðherra þessu til stuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×