Enski boltinn

Einn af styrktar­aðilum New­cast­le sagður mis­þyrma starfs­fólki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirtækið noon hefur og mun halda áfram að auglýsa á búningum Newcastle United.
Fyrirtækið noon hefur og mun halda áfram að auglýsa á búningum Newcastle United. EPA-EFE/JOEL CARRETT

Fyrirtækið Noon er einn af fjölmörgum styrktaraðilum enska knattspyrnufélagsins Newcastle United. Er fyrirtækið, sem staðsett er í Sádi-Arabíu, sagt misþyrma starfsmönnum sínum.

Newcastle er að mestu í eigu fjárfestingasjóðsins PIF en sjóðurinn er í eigu konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu. The Athletic greinir nú frá að fyrirtækið sé ásakað um að misþyrma starfsmönnum sínum.

Á vef miðilsins er viðtal við mann sem flutti frá Pakistan til Sádi-Arabíu til að vinna fyrir Noon í von um að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Samkvæmt viðtalinu fékk hann ekki laun fyrstu þrjá mánuðina, var laminn þegar hann spurði út í laun sín og þá var vegabréf hans gert upptækt.

Noon er ein stærsta netverslun Mið-Austurlanda og vann maðurinn sem kallaður er Irfan í vöruhúsi fyrirtækisins í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu.

Samningur Noon við Newcastle nær aftur til júní 2022 en fyrirtækið borgar félaginu rúmar sjö og hálfa milljón sterlingspunda (1,3 milljarður íslenskra króna) á ári fyrir að merki Noon sé á ermum búninga Newcastle.

Verður félagið það áfram þrátt fyrir fréttir þess efnis að starfsfólk fyrirtækisins vinni við bágar aðstæður og brotið sé gegn því. Alls hefur The Athletic talað við tólf manns sem hafa svipaða sögu að segja og Irfan.

Noon er einnig í samtarfi við Englandsmeistara Manchester City. Það samstarf er þó mun minna í sniðum en samstarf Noon og Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×