Erlent

Lokuðu ferða­manna­stöðum og skólum vegna mikils hita

Lovísa Arnardóttir skrifar
Börn léku sér í gosbrunni í hitanum í dag.
Börn léku sér í gosbrunni í hitanum í dag. Vísir/EPA

Loka þurfti einum vinsælasta ferðamannastað í Grikklandi, Akrópólis í Aþenu, í dag vegna mikils hita. Þá var einnig skólum lokað og gefin úr viðvörun frá heilbrigðisyfirvöldu. Hitabylgja gengur nú yfir landið. Methiti, miðað við árstíma, var í dag og verður á morgun í Aþenu. Hitastigið gæti náð 43 gráðum.

Um er að ræða fyrstu hitabylgju ársins í Grikklandi en hún er töluvert snemma á ferð samkvæmt veðurfræðingum. Menningarráðherra landsins varaði við því í dag að lokanir í skólum og ferðamannastöðum gæti verið framlengt

„Á 20. öldinni var aldrei hitabylgja fyrir 19. júní. Við höfum fengið nokkrar á 21. öldinni en enga fyrir 15. Júní,“ sagði Panos Giannopoulos ríkisveðurfræðingur Grikklands í dag.

Starfsfólk lokaði hliðunum að Akrópólis snemma í dag. Vísir/EPA

Varað hefur við hættu á skógareldum í Attica héraði. Skólar í héraðinu verða lokaðir á morgun og sömuleiðis í höfuðborginni. Opinberum starfsmönnum hefur verið ráðlagt að vinna heima. Þá hefur ráðuneytið einnig fyrirskipað að frá síðdegis í dag og þar til á morgun eigi ekki að vinna utandyra, og jafnvel ekki afhenda mat.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að á lestarstöð í Aþenu hafi verið opnaður salur með loftræstingu svo fólk gæti leitað skjóls frá hitanum. Þar kemur einnig fram að loka hafi þurft Akrópólis í tvær vikur í júlí í fyrra vegna mikils hita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×