Körfubolti

Spurðu hvort Frið­rik vildi ekki frekar bíða eftir starfi hjá karlaliði

Aron Guðmundsson skrifar
Þjálfarinn sigursæli og reynslumikli, Friðrik Ingi Rúnarsson, hefur nú tekið skrefið aftur inn í þjálfun. Hann er tekinn við þreföldu meistaraliði Keflavíkur.
Þjálfarinn sigursæli og reynslumikli, Friðrik Ingi Rúnarsson, hefur nú tekið skrefið aftur inn í þjálfun. Hann er tekinn við þreföldu meistaraliði Keflavíkur. Vísir/Arnar Halldórsson

Nú á dögunum bárust af því fréttir að þjálfarinn reynslu­mikli og sigur­sæli, Frið­rik Ingi Rúnars­son, yrði næsti þjálfari kvenna­liðs Kefla­víkur í körfu­bolta. Hann er fullur til­hlökkunar fyrir komandi tímum. Sumir telja hann galinn að taka starfið að sér. Aðrir spurðu Frið­rik hvort hann vildi ekki frekar bíða eftir starfi hjá karla­liði. Hann segir hins vegar á­kveðinn heiður fólginn í því að vera ráðinn þjálfari kvenna­liðs Kefla­víkur, liðinu sem vann allt sem hægt var að vinna á síðasta tíma­bili.

Spennandi og krefjandi

Ráðningin markar endur­komu Frið­riks Inga í þjálfun en hann stýrði síðast liði ÍR í efstu deild karla árið 2022. Frið­rik hefur komið víða við á sínum ferli, unnið allt sem hægt er að vinna hér á landi og tekur nú við liði Kefla­víkur sem vann alla titla sem í boði voru á síðasta tíma­bili.

„Þetta leggst mjög vel í mig,“ segir Frið­rik Ingi í sam­tali við í­þrótta­deild Stöðvar 2, „Það er spennandi að vera snúinn aftur í þjálfun, erfitt að slíta sig frá þessu. Ein­hverjir segja að ég sé galinn að taka við þessu starfi. Að taka við liði sem vann alla titla á síðasta tíma­bili. Það er svo sem ekki hægt að gera það mikið betur.

Það verður hins vegar ein­hver að gera það. Mér finnst þetta bæði spennandi og krefjandi. Það er eitt­hvað sem ég hef oft leitast eftir í þessu. Að taka við ein­hverjum á­skorunum. Ég er bara fullur til­hlökkunar fyrir því að fara vinna með þessu frá­bæra kvenna­liði Kefla­víkur.“

Alltaf pressa í Keflavík

Pressan á að vinna titla er gífur­leg hjá Kefla­vík. Í stað þess að taka við liði sem verið er að byggja upp er Frið­rik Ingi að taka við þre­földu meistara­liði sem vill meira.

Er ekki annars konar pressa sem fylgir því?

Deildar-, Íslands- og bikarmeistarar KeflavíkurVísir/Pawel

„Jú það er alveg hægt að segja það þannig. Það er í fyrsta lagi bara alltaf pressa í Kefla­vík. Sama hvort þú sért að taka við kvenna- eða karla­liði fé­lagsins. Kvenna­lið fé­lagsins er auð­vitað sigur­sælasta liðið í sögunni. Þar þekkja menn ekkert annað en að vinna titla. Vilja vera í bar­áttunni um alla titla, öll tíma­bil. Það er á­kveðin pressa sem fylgir þessu. Þetta verður krefjandi. En ég hlakka mikið til.“ 

„Það eru auð­vitað líka eitt­hvað af ungum stelpum að banka á hurðina hjá meistara­flokki. Leik­menn að koma upp úr yngri flokka starfinu og ég hef af­skap­lega gaman af því að vera inni á gólfinu að kenna og lið­sinna ungum leik­mönnum sem að vilja ná enn lengra. Þarna eru líka leik­menn sem eru kannski með augun á því að komast út í há­skóla­boltann eða Evrópu­körfu­boltans seinna meir. Þetta er bara skemmti­legt verk­efni fram undan.“

Vill halda í kjarna liðsins

Lið Kefla­víkur er gífur­lega vel mannað og með lands­liðs­konur innan­borðs. Sem og leik­menn sem gætu vel spjarað sig úti í at­vinnu­mennsku.

Sérðu fram á miklar breytingar á leik­manna­hópi Kefla­víkur milli tíma­bila? Hefurðu til að mynda á­hyggjur af því að lið er­lendis frá reyni að bera vígjurnar í ykkar stærstu nöfn?

Lið Keflavíkur var óstöðvandi á síðasta tímabili, vann alla titla sem hægt var að vinna.Vísir/Pawel

„Það eru flestir leik­menn á samningi en þó nokkrar sem við eigum í við­ræðum við núna. Sú vinna er bara í gangi. Ég vona auð­vitað bara að við höldum sama kjarnanum af leik­mönnum og svo skoðum við er­lenda leik­menn í kjöl­farið. Ég hræðist það í sjálfu sér ekkert. Við tökum bara því sem að höndum ber. Gerum eins vel og við getum úr þeim efni­við sem við munum hafa úr að moða. Það verður bara skemmti­legt verk­efni. En ég vonast bara til þess að við höldum flestum, vonandi bara öllum kjarnanum í leik­manna­hópnum. Það væri draumur.“

En hvernig horfir hann á bar­áttuna fram undan í Subway deild kvenna sem og styrk­leika deildarinnar.

„Sem betur fer hefur breiddin í liðum deildarinnar lagast mikið þó að við séum enn að sjá það gerast, kannski full oft, að lið þurfi að draga sig úr keppni. Það er náttúru­lega mjög sárs­auka­fullt og blóðugt. Leiðin­legt þegar að svo­leiðis staða er uppi.

En við getum sagt að í deildinni séu fleiri lið sem eru bara mjög góð. Þó svo að vanti kannski breiddina í þeim fjölda liða, sem eru stöðug í þessum efstu deildum, þá eru mörg lið sem blanda sér í bar­áttuna. Þetta verður mjög skemmti­legt og spennandi. Við erum í þeirri stöðu að vera ríkjandi meistarar í öllum keppnum. Það vilja allir gogga í þann sem að vann allt. Við þurfum því að vera til­búnar í að takast á við það. Í því felst á­kveðin á­skorun í sjálfu sér.“

Frá leik Keflavíkur gegn Njarðvík í úrslitaeinvígi Subway deildarinnar á síðasta tímabili. Hér má sjá einn lykilleikmann liðsins, landsliðskonuna Söru Rún Hinriksdóttur, keyra í átt að körfunniVísir/Pawel

Heiður að fá starfið

Eitt er víst og það er að það ríkir mikil til­hlökkun hjá Frið­riki Inga fyrir endur­komunni í þjálfara­stöðu hjá meistara­flokksliði.

„Ein­hverjir spurðu mig hvort að ég vildi ekki bíða eftir þjálfara­stöðu hjá ein­hverju karla­liði. Mér fannst hins vegar eitt­hvað smart við þetta verk­efni hjá kvenna­liði Kefla­víkur. Mér fannst þetta vera skemmti­legt, spennandi og á­kveðinn heiður. Að fá að taka við Kefla­víkur­liðinu. Ég lít því bara björtum augum á þetta verk­efni fram undan og hlakka mikið til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×