Lífið

Þrjú hundruð börn reyna að dorga furðu­legasta fiskinn

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Keppnin er haldin árlega. Þessi mynd er af efnilegum veiðimönnum á bryggjunni í fyrra.
Keppnin er haldin árlega. Þessi mynd er af efnilegum veiðimönnum á bryggjunni í fyrra. HAFNARFJARÐARBÆR

Von er á þrjú hundruð börnum á Flensborgarbryggjuna í dag þar sem árleg dorgveiðikeppni Hafnarfjarðarbæjar fer fram. Verðlaun verða meðal annars veitt þeim sem veiðir stærsta fiskinn og þann furðulegasta.

Keppnin hefur verið haldin árlega í um þrjátíu ár og er börnum á leikjanámskeiðum bæjarins og öllum þeim sem hafa áhuga á fiskveiði boðið að koma og dorga í Flensborgarhöfn.

Veiðist eitthvað? 

„Sagan segir að það veiddist alltaf miklu meira því þá var alltaf úrgangur að koma í höfnina en nú er það ekki þannig það veiðist minna en það veiðist samt alltaf,“ sagði Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs og forvarna í Hafnarfjarðarbæ, sem hefur haft umsjón með keppninni í nokkur ár. 

Keppt verður í þremur flokkum á bryggjunni í dag.

„Við reynum að keppa um hver er mesta aflaklóin og veiðir flesta fiskana. Við keppum líka um það hver veiðir furðulegasta fiskinn og það hafa komið margir furðulegir fiskar í gegnum tíðina, að minnsta kosti síðan ég byrjaði þarna og svo keppum við um það hver veiðir stærsta fiskinn.“

Fjölmennasta dorgveiðikeppni landsins

Hún segir keppnina alltaf vel sótta og segir að um þrjú hundruð börn mæti til leiks í dag.

„Ég held að þetta sé stærsta dorgveiðikeppni sem haldin er hérlendis, ef ekki víðar.“

Keppnin hefst klukkan hálf tvö og hvetur Stella þá sem hafa áhuga á dorgveiði að skella sér á bryggjuna.

„Ef einhver vill bruna á Flensborgarbryggjuna og koma og dorga með okkur. Það eru veiðarfæri á staðnum og öll velkomin.“


Tengdar fréttir

Mok­veiði hjá efni­legustu dorgurum landsins

Árleg Dorgveiðikeppni Hafnarfjarðar fór fram við Flensborgarhöfn í gær. Keppendur voru krakkar á grunnskólaaldri en um er að ræða fjölmennustu dorgveiðikeppni landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×