Ítalía kom til baka gegn Albaníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ítalír fagna marki Nicolo Barella.
Ítalír fagna marki Nicolo Barella. AP Photo/Alessandra Tarantino

Ítalía hefur Evrópumót karla í knattspyrnu á 2-1 sigri á Albaníu eftir að lenda undir á fyrstu mínútu. Um var að ræða fljótasta mark í sögu EM.

Snemma leiks áttu Ítalir innkast nálægt eigin vítateig. Federico Dimarco ákvað að kasta boltanum heldur laust í átt að eigin vítateig og það sem meira var, á engan ákveðinn leikmann.

Það nýtti Nedim Bajrami sér, náði boltanum og fór framhjá miðverði Ítalíu áður en hann þrumaði boltanum upp í þaknetið af stuttu færi og staðan orðin 1-0 Albaníu í vil.

Ítalir voru þó ekki lengi að taka við sér. Rétt rúmum tíu mínútum fékk Ítalía hornspyrnu sem var tekin stutt, Lorenzo Pellegrini gaf fyrir og þar var Alessandro Bastoni einn á auðum sjó og stangaði boltann í netið.

Fimm mínútum síðar kom Nicolo Barella Ítalíu yfir með frábæru skoti eftir að Albaníu mistókst að hreinsa boltann eftir sendingu inn á teig. Staðan orðin 2-1 og reyndust það hálfleikstölur.

Ítalía ákvað að halda fengnum hlut í síðari hálfleik og gekk það, lokatölur 2-1. Það eru því Ítalía og Spánn sem eru með þrjú stig að lokinni einni umferð í B-riðli á meðan Albanía og Króatía eru án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira