Fótbolti

Spán­verjar missa miðvörð í meiðsli fyrir fyrsta leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Laporte æfði einn á rólegu tempói á fimmtudag en var hvergi sjáanlegur á æfingu liðsins í dag.
Laporte æfði einn á rólegu tempói á fimmtudag en var hvergi sjáanlegur á æfingu liðsins í dag. Emilio Andreoli - UEFA/UEFA via Getty Images

Miðvörðurinn Aymeric Laporte mun ekki geta tekið þátt í fyrsta leik Spánar á Evrópumótinu á morgun gegn Króatíu.

Laporte æfði einn á fimmtudag vegna meiðsla og tók ekki þátt á æfingu í dag. Spænska knattspyrnusambandið sagði að hann muni samt ferðast með liðinu og vera hluti af leikmannahópnum á Ólympíuleikvanginum í Berlín á morgun.

Nacho Illaramendi, leikmaður Real Madrid, mun væntanlega taka hans stað í vörninni. Við hans hlið verður líklega Robin Le Normand, leikmaður Real Sociedad. Dani Vivian, hjá Athletic Bilbao, kemur einnig til greina en þetta eru einu miðverðirnir í spænska landsliðshópnum eftir að Pau Cubarsi, leikmaður Barcelona, var látinn sitja eftir heima.

Laporte hefur verið fastamaður í spænska liðinu undanfarin ár, byrjaði fjóra af sex leikjum í undankeppninni og þrjá af fjórum leikjum liðsins á HM 2022.

Spánn og Króatía eigast við á morgun. Liðin mættust í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar á síðasta ári en þar fór Spánn með sigur eftir vítaspyrnukeppni.

Næstu leikir Spánar verða svo gegn Ítalíu og Albaníu, 20. og 24. júní.


Tengdar fréttir

Unai Simon hetja Spánverja þegar liðið vann Þjóðadeildina

Spánn bar sigurorð af Króatíu þegar liðin mættust í úrslitum Þjóðadeildar UEFA í fótbolta karla á De Kuip í Rotterdam í Hollandi í kvöld. Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og þar af leiðandi réðust úrslitin í vítaspyurnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×