Körfubolti

Hélt að hásinin hefði slitnað: „Fékk svona til­finningu eins og ein­hver hefði sparkað aftan í mig“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martin Hermannsson hefur verið lykilmaður síðan hann gekk aftur til liðs við Alba Berlin í janúar en hann gat ekki tekið þátt í úrslitaeinvíginu.
Martin Hermannsson hefur verið lykilmaður síðan hann gekk aftur til liðs við Alba Berlin í janúar en hann gat ekki tekið þátt í úrslitaeinvíginu. Inaki Esnaola/Getty Images

Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson meiddist á versta mögulega tíma og missti af úrslitaeinvígi þýsku úrvalsdeildarinnar þar sem Alba Berlin tapaði gegn Bayern Munchen.

Meiðslin eru ekki mjög alvarleg, tognun í kálfa og Martin verður frá í 4-6 vikur.

Hann hefur verið lykilmaður í liði Alba Berlin síðan hann sneri aftur til þýska liðsins í janúar en meiddist undir blálok fjórða leiks í undanúrslitum gegn Niners Chemnitz. Martin hafði átt frábæran leik og spilað stóran þátt í að tryggja oddaleik í einvíginu. 

„Það var lítill fyrirvari á þessu. Ég var búinn að vera slæmur í hásinunum síðustu tvær vikurnar. Svo bara gerist það að ég hoppa upp, átta sekúndur eftir af leiknum, og ég hélt fyrst að hásinin væri að fara. Fékk svona tilfinningu eins og einhver hefði sparkað aftan í mig. Sem betur fer var þetta í kálfanum.“

Undanúrslitaeinvígið vannst svo í oddaleik og Alba Berlin lék til úrslita gegn Bayern Munchen, en Martin gat ekki tekið þátt, sem er auðvitað gríðarlega svekkjandi.

„Þú æfir allan veturinn fyrir þetta móment. Það er ekkert sjálfgefið að komast í úrslit. Tímasetningin á þessu gæti ekki verið verri.“

Mættu ofjarli sínum í úrslitum

Bayern Munchen vann úrslitaeinvígið 3-1 eftir 88-82 sigur í fjórða leik liðanna í Berlín í gær.

Alba tókst næstum því að snúa leiknum við undir lokin og knýja fram oddaleik en Bayern hélt út og er Þýskalandsmeistari, tvöfaldur meistari raunar eftir bikarsigur í febrúar.

„Hundfúlt, en á sama tíma er margt mjög jákvætt á þessu tímabili og við getum verið stoltir af því að fara í úrslit miðað við hvað var. Þessar íþróttir eru bara einn stór rússíbani af tilfinningum en það er náttúrulega glatað þegar þú ert kominn svona langt að klára þetta. Þá hefðirðu getað farið í sumarfrí fyrir fjórum vikum, ef við ætlum ekki að klára þetta almennilega.“

Viðtalið og innslagið allt úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×