Fótbolti

Yngsti þjálfarinn stýrði stærsta opnunarsigri í sögu EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Julian Nagelsmann tók við þýska landsliðinu í september 2023 og náði aðeins átta leikjum fyrir EM. Sá níundi endaði vel. 
Julian Nagelsmann tók við þýska landsliðinu í september 2023 og náði aðeins átta leikjum fyrir EM. Sá níundi endaði vel.  Boris Streubel/Getty Images

Julian Nagelsmann hrósaði lærisveinum sínum í þýska landsliðinu eftir 5-1 sigur gegn Skotlandi. Þetta var stærsti sigur í opnunarleik í sögu Evrópumótsins og Nagelsmann varð um leið yngsti þjálfari í sögu mótsins. 

Nagelsmann varð yngsti aðalþjálfari í sögu Evrópumótsins í kvöld, 36 ára og 327 daga gamall. Nagelsmann er fjórum dögum yngri en fyrri methafinn, Srecko Katanec, sem stýrði Slóveníu á EM 2000.

Þetta var sömuleiðis stærsti sigur í opnunarleik í sögu Evrópumótsins. Nagelsmann var eðlilega kampakátur að honum loknum.

„Í fyrsta leik á heimavelli, það er mikil pressa. Ég var ánægður með frammistöðuna, sérstaklega fyrstu 20 mínúturnar þar sem við vorum frábærir, héldum boltanum og pressuðum vel þegar við misstum hann,“ sagði Nagelsmann eftir leik.

Skotland átti ekki skot að marki heimamanna en skoruðu eitt mark þegar Antonio Rudiger setti boltann óvart í eigið net á 87. mínútu.

„Það kom mér á óvart hversu værukærir þeir voru. Við komum þeim kannski á óvart, þeir virkuðu smeykir. Þeir pressuðu ekki hátt eins og þeir hafa oft gert. Ég held að leikurinn hafi unnist á fyrstu 20 mínútunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×