Enski boltinn

Yngsti þjálfari í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýr þjálfari Brighton er stemningsmaður.
Nýr þjálfari Brighton er stemningsmaður. Stuart Franklin/Getty Images

Brighton & Hove Albion heldur áfram að fara ótroðnar slóðir í þjálfararáðningum sínum en nýr þjálfari liðsins mun verða sá yngsti í sögu ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu.

Þegar Roberto De Zerbi ákvað að segja skilið við Brighton eftir tæplega tvö tímabil við stjórnvölin var næsta víst að Brighton myndi fara sínar eigin leiðir þegar kæmi að því að ráða nýjan stjóra.

De Zerbi var óvænt ráðning enda aðeins starfað í Úkraínu og Ítalíu þar sem hann náði misjöfnum árangri en spilaði þó alltaf áferðafallega knattspyrnu. Þar áður var Graham Potter nokkuð óvænt ráðning en hann hafði átt fínt tímabil með Swansea City eftir að skapa sér nafn hjá Östersund í Svíþjóð.

Nýr þjálfari Brighton er svo heldur betur óvæntur en það er hinn 31 árs gamli Fabian Hürzeler. Hann verður um leið yngsti þjálfari í sögu deildarinnar.

Hürzeler hefur þjálfað St. Pauli síðan 2022 og kom liðinu upp í þýsku úrvalsdeildina á nýafstöðnu tímabili. Þar áður stýrði hann FC Pipinsried í neðri deildum Þýskalands ásamt því að spila með liðinu.

Þjálfarinn ungi var á sínum tíma efnilegur leikmaður og á landsleiki með U15-U19 ára landsliðum Þýskalands. Spilaði hann með stórum félögum - Bayern München, Hoffenheim og 1860 München – en hins vegar eingöngu með varaliðum þeirra.

Það virðist hafa verið rétt skref að snúa sér að þjálfun en hann mun nú stýra Brighton í því sem er af mörgum talið vera sterkasta deild heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×