Enski boltinn

Man United í­hugar kaup á Zirkzee

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joshua Zirkzee gæti verið á leið til Englands en hann hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur.
Joshua Zirkzee gæti verið á leið til Englands en hann hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Alessandro Garofalo/AP

Manchester United skoðar nú hvort það sé möguleiki á að festa kaup á framherjanum Joshua Zirkzee, leikmanni Bologna á Ítalíu.

Hinn 23 ára gamli Zirkzee er sagður falur fyrir 40 milljónir evra, tæpa sex milljarða íslenskra króna. Hann skoraði 11 mörk og gaf fimm stoðsendingar á síðustu leiktíð þegar Bologna tryggði sér þátttöku í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Man Utd mun spila í Evrópudeildinni á komandi leiktíð en ætti að geta hækkað laun Zirkzee umtalsvert ásamt því að félagið er töluvert stærra á heimsvísu en Bologna.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hollendingurinn komið víða við. Hann gekk í raðir akademíu Bayern München eftir að hefja ferilinn hjá Feyenoord í heimalandinu. Þaðan fór Zirkzee á láni til Parma á Ítalíu og Anderlecht í Belgíu áður en Bologna keypti hann árið 2022.

Zirkzee er hluti af hollenska landsliðshópnum sem tekur þátt á EM sem nú fer fram í Þýskalandi. Hann var ónotaður varamaður í 2-1 sigrinum á Póllandi á sunnudaginn var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×