Fótbolti

Sjáðu Real Madrid strákinn slá met Ronaldo með rosa­legu marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arda Guler fagnar hér frábæru marki sínu í gær. Þessi ungi leikmaður fékk traustið og sýndi af hverju.
Arda Guler fagnar hér frábæru marki sínu í gær. Þessi ungi leikmaður fékk traustið og sýndi af hverju. Getty/ Joe Prior

Það vantaði ekki glæsimörkin í sigri Tyrkja eða dramatíkina í sigri Portúgala þegar fyrsta umferð riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í Þýskalandi kláraðist í gær. Nú hafa öll liðin spilað leik á mótinu. Hér má sjá mörkin úr leikjum gærdagsins.

Hinn nítján ára gamli Arda Guler var í aðalhlutverki í gær þegar Tyrkir hófu leik á Evrópumótinu.

Georgíumenn léku sinn fyrsta leik á stórmóti í sögunni en þurftu að sætta sig við 3-1 tap á móti nágrönnum sínum frá Tyrklandi.

Guler skoraði annað mark Tyrkja og kom þeim aftur yfir eftir að Georgíumenn höfðu jafnað.

Markið kom með stórkostlegu skoti stráksins fyrir utan teig sem söng upp í fjærhorninu. Guler, sem spilar með Real Madrid, sló þarna met Cristiano Ronaldo. Þarna sýndi hann af hverju Real vildi fá hann.

Hann var aðeins nítján ára og 114 daga gamall í gær og sló þar með met Ronaldo yfir að vera sá yngsti til að skora í sínum fyrsta leik á EM. Ronaldo var 19 ára og 128 daga gamall á EM 2004.

Mert Muldur skoraði fyrsta mark Tyrkjanna og það var líka stórglæsilegt viðstöðulaust skot af löngu færi. Georges Mikautadze jafnaði metin en þriðja og síðasta markið skoraði Kerem Akturkoglu í tómt mark eftir að markvörður Georgíu hafði farið fram undir lok leiksins.

Mikil dramatík var í leik Portúgala og Tékka. Portúgalar unnu leikinn á endanum 2-1 eftir að hafa lent undir.

Varamaðurinn Francisco Conceicao skoraði sigurmarkið í uppbótatíma en áður hafði Varsjáin dæmt mark af Diogo Jota þar sem að Ronaldo var rangstæður í aðdragandanum.

Lukas Provod kom Tékum yfir á 62. mínútu en Portúgalar jöfnuðu með sjálfsmarki sjö mínútum síðar.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr þessum tveimur leikjum en EM heldur síðan áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×