Fótbolti

Enn ó­víst hvort Mbappé geti spilað gegn Hollendingum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé sleppur við aðgerð eftir að hafa nefbrotnað, en þó er enn óvíst hvort hann geti verið með Frökkum er liðið mætir Hollendingum.
Kylian Mbappé sleppur við aðgerð eftir að hafa nefbrotnað, en þó er enn óvíst hvort hann geti verið með Frökkum er liðið mætir Hollendingum. Michael Regan - UEFA/UEFA via Getty Images

Franska landsliðið í knattspyrnu gæti þurft að reiða sig af án stórstjörnunnar Kylian Mbappé er liðið mætir Hollendingum á EM næstkomandi föstudag.

Mbappé nefbrotnaði í 1-0 sigri Frakka gegn Austurríki í fyrsta leik liðanna á EM síðastliðinn mánudag. Hann lenti þá í samstuði við Kevin Danso og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús í Düsseldorf þar sem staðfest var að hann hafi nefbrotnað.

Sem betur fer fyrir franska liðið, og Mbappé sjálfan, þarf leikmaðurinn ekki á aðgerð að halda. Slík aðgerð hefði getað þýtt að framherjinn myndi missa af öllu mótinu.

Enn er þó óvíst hvort Mbappé muni geta tekið þátt í næsta leik Frakka þegar liðið mætir Hollandi á föstudaginn. Frakkland og Holland unnu bæði sína leiki í fyrstu umferð riðlakeppninnar og berjast því um efsta sæti D-riðils.

Franska knattspyrnusambandið hefur þó sagt að sambandið muni uppfæra stuðningsmenn liðsins um stöðu Mbappé í dag, miðvikudag. Þá hefur franska sambandið einnig gefið út að sérstök hlífðargríma verði útbúin fyrir leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×