Atvinnulíf

Ó­öryggi, feimni og jafn­vel ein­mana­leiki í nýju sumar­vinnunni

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er ekkert sjálfgefið að okkur líði strax mjög vel á nýjum vinnustað sem sumarstarfsmenn. Þar sem allir aðrir þekkjast og eru jafnvel miklu eldri en við. En þá er ágætt að fókusera á nokkur góð ráð til að tryggja, að sumarvinnan nýtist okkur sjálfum sem mest og best og til langframa.
Það er ekkert sjálfgefið að okkur líði strax mjög vel á nýjum vinnustað sem sumarstarfsmenn. Þar sem allir aðrir þekkjast og eru jafnvel miklu eldri en við. En þá er ágætt að fókusera á nokkur góð ráð til að tryggja, að sumarvinnan nýtist okkur sjálfum sem mest og best og til langframa. Vísir/Getty

Nú þegar líður að lok júní eru eflaust margir sumarstarfsmenn búnir að koma sér vel fyrir á nýja vinnustaðnum, þekkja verkefnin sín og spjalla við vinnufélaga. Og þó….það er þó ekkert endilega svo sjálfgefið.

Að ráða sig í sumarvinnu, þar sem allir aðrir á vinnustaðnum þekkjast og þekkja vel til allra verkefna, er heljarinnar verkefni að takast á við.

Og alveg eðlilegt að upplifa óöryggi, feimni og jafnvel smá einangrun eða einmanaleika. Sumarstarfsfólk er líka oft í yngra kantinum og að vinna með fólki sem er á aldri við foreldrana eða jafnvel ömmu og afa og þar af leiðandi er tilfinningin um einangrun eða einmanaleika oft tilfinning sem gerir vart við sig.

Vinnudagurinn er jú lungað af tímanum okkar yfir vikuna.

En hér eru nokkur góð ráð sem gætu hjálpað.

1. Að hugsa jákvætt (fyrir þig)

Í staðinn fyrir að leyfa orkunni og huganum að festast í óþægilegu tilfinningunum, er gott að stýra huganum í allt það jákvæða sem fylgir sumarvinnunni. Til dæmis að vera á fínum launum, að hafa fengið þessa vinnu, að geta sett þennan vinnustað á ferilskránna, að vera að læra eitthvað nýtt, að vera að ráða við verkefnin og svo framvegis.

Að hugsa jákvætt getur líka falið í sér alls kyns dagdrauma. Til dæmis hvernig þessi vinna og námið sem þú ert í, mun smám saman leiða til þess að þú ferð að byggja upp þinn frábæra starfsframa, í draumastarfi, að gera það gott og svo framvegis. Hver dagur er að koma þér nær framtíðinni….

2. Verðmætin þín

Stundum þegar við erum óörugg, gleymum við að horfa á allt það jákvæða sem við búum yfir. Og þá sérstaklega hversu mikils virði við sjálf erum. Til dæmis er vinnustaðurinn örugglega mjög þakklátur fyrir þína starfskrafta, því jú; margir á staðnum eru í sumarfríum og ákveðin verkefni þarf að dekka.

Síðan erum við oftast skemmtilegri að spjalla við en við gerum okkur sjálf grein fyrir. Við skulum því ekki leyfa huganum að segja okkur nokkuð annað en það að það sé mikið í okkur varið.

Til að sýna það í verki, er góð leið í nýrri vinnu að vera dugleg að sýna frumkvæði og/eða að sýna í verki hvað okkur er mikið í mun að vera dugleg og góð í því sem við erum að gera. Það skal enginn halda að það sé ekki eftir því tekið!

3. Stattu með sjálfum þér

Loks þurfum við að horfa raunsætt á að vinnustaðir eru oftast að glíma við einhver vandamál, áður en við mætum til starfa. Þetta þýðir að alls kyns brotalamir geta verið í þeirri vinnustaðamenningu sem ríkir innandyra.

Á sumum vinnustöðum er sú menning til dæmis ríkjandi að fólk er ekkert rosalega hjálplegt eða að nýtt fólk verður vart við ákveðið baktal og svo framvegis.

Sama hvað vekur athygli þína og þér finnst vera frekar miður, er aðalmálið að fókusa áfram á sjálfan þig númer 1,2 og 3. Ekki taka þátt í menningu sem felur í sér niðurrif og neikvæðni, heldur frekar að vera partur af lausninni og reyna að smita jákvæðni, áhugasemi og drifkrafti.

Þótt eitthvað af nýjum vinnufélögum heyrist tuða um að eitthvað ætti frekar að vera svona eða hinsegin, eða að yfirmaðurinn sé svona eða hinsegin og svo framvegis, er um að gera að hugsa: Ég ætla að ná því besta út úr þessu sumarstarfi fyrir mig; reynslulega, lærdómslega og vellíðunarlega.

Þannig nærðu að halda fókusnum þannig að sumarvinnan þín sé fyrst og fremst skref í áttina að þeirri framtíð sem þú ætlar þér að skapa þér.

4. Önnur góð ráð

Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir okkur öll miklu máli að eiga vin í vinnunni. Þegar við ráðum okkur tímabundið í starf og upplifum okkur kannski ekki eiga samleið með því fólki sem starfar á vinnustaðnum, getur þetta verið erfitt.

Hins vegar er alltaf ágætt að reyna að mynda einhver tengsl. Því félagslega hliðin í vinnunni er stór partur af því að okkur líði vel.

Í grein Atvinnulífsins um einmanaleika í vinnunni, sem er algengt fyrirbæri um allan heim, er meðal annars sagt:

„Til að sporna við einmanaleika í vinnu er mikilvægast að vinna að einhverri tengslamyndun við samstarfsfélaga sem síðan geta leitt til vinskapar. Að borða með vinnufélögum í hádeginu er ein leið og eins getur það myndað tengsl að bjóðast til að taka að sér verkefni eða að aðstoða vinnufélaga. Þá er mælt með því að bíða ekki eftir því að vinnufélagar kynni sig fyrir þér heldur taka af skarið og kynna sig fyrir vinnufélögum."

Hér eru líka nokkur ráð til að sporna við feimni:

Loks er gott að hvetja alla til að biðja um aðstoð þegar við erum að læra inn á nýtt starf, nýtt hlutverk, ný verkefni og finnst eitthvað flókið eða erfitt. 

Enda svo fljótt að vinda upp á sig að fá kvíðahnút í magann, jafnvel í marga daga, ef við erum ein að reyna að takast á við eitthvað sem við þyrftum að fá aðstoð við.

Hér er góð grein sem gæti hjálpað okkur til við að þora oftar að biðja um aðstoð.


Tengdar fréttir

Öfund í vinnu og afbrýðisamir vinnufélagar

Það getur verið erfitt að upplifa afbrýðisemi og öfund frá vinnufélögum. Að finnast maður varla geta fagnað áföngum því að við finnum svo sterkt að ákveðinn einstaklingur, jafnvel nokkrir, eru ekki að samgleðjast okkur.

Tilfinningin „að langa ekki til að fara í vinnuna“

Það er erfitt að líða þannig að langa ekki til að mæta til vinnu. Að fá hnút í magann á sunnudagskvöldum því að það er vinna daginn eftir. Að vera aldrei í tilhlökkun fyrir næsta dag, vegna þess að það er vinna daginn eftir.

Að forðast baktalið í vinnunni

Við tökum öll þátt í kjaftagangi einstaka sinnum. Heyrum einhverja djúsí kjaftasögu og berum hana á milli. Eða veltum okkur upp úr henni. Þetta er mannlegt og í raun þarf enginn að skammast sín því rannsóknir hafa sýnt að smá kjaftagangur er flestum eðlislægur. Þó ekki nema stundum í góðra vina hópi. 

Eitrað andrúmsloft getur haft langtímaáhrif

Eitrað andrúmsloft á vinnustað á sér margar birtingarmyndir. Við höfum heyrt af málum eins og einelti, samskiptaörðugleikum á milli vinnufélaga, vinnustaðamenningu sem samþykkir almennt baktal um náungann, kynþáttfordómum og öðrum fordómum (til dæmis vegna aldurs, kynhneigðar eða fitufordómar) og fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×