Fótbolti

Biður fyrir­liða sinn af­sökunar á rasískum um­mælum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rodrigo Bentancur lét heldur óheppileg ummæli falla.
Rodrigo Bentancur lét heldur óheppileg ummæli falla. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Rodrigo Bentancur, leikmaður Tottenham, hefur beðið Son Heung-Min, fyrirliða Tottenham, afsökunar á rasískum ummælum sem hann lét falla í viðtali á dögunum.

Bentancur, sem er staddur á Copa América með úrúgvæska landsliðinu, lét ummælin falla í viðtali við sjónvarpsstöð þar í landi.

„Frá Sonny? Þetta gæti verið frá frænda hans því þeir líta allir eins út,“ sagði Bentancur í viðtali er hann var beðinn um treyju frá Tottenham.

Bentancur baðst svo afsökunar á ummælum sínum í færslu á Instagram og sagði að um grín hafi verið að ræða, en viðurkenndi að grínið hafi verið smekklaust.

Heung-Min Son, fyrirliði Tottenham, segir að þeir félagar hafi grafið stríðsöxina.

„Ég er búinn að ræða við Lolo. Hann gerði mistök, hann veit af því og hann hefur beðist afsökunnar,“ sagði Son.

„Lolo myndi aldrei segja neitt til að særa neinn viljandi. Við erum bræður og það hefur ekkert breyst.“

„Við erum búnir að grafa þetta mál og við stöndum saman. Við munum hittast aftur á undirbúningstímabilinu og berjast saman fyrir klúbbinn okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×