Fótbolti

Sjáðu fyrsta sjálfsmarkið sem Ítali skorar í sögu EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riccardo Calafiori getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að hafa sent boltann í eigið mark.
Riccardo Calafiori getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að hafa sent boltann í eigið mark. Getty/Eric Verhoeven

Evrópumeistarar Ítala voru undir á flestum sviðum á móti Spánverjum í leik þjóðanna í Evrópukeppninni í gærkvöldi en það voru þó þeir sjálfir sem á endanum tryggðu spænska liðinu sigurinn.

Fimm mörk voru skoruð í þremur leikjum Evrópumótsins í gær. Fyrstu tveir leikirnir enduðu með 1-1 jafntefli en Spánn vann síðan 1-0 á Ítalíu í lokaleiknum. Hér fyrir neðan má sjá öll mörkin úr leikjunum.

Riccardo Calafiori var skúrkurinn hjá Ítölum þegar hann sendi boltann í eigið mark. Þetta var í fyrsta sinn sem Ítalí skorar sjálfsmark í úrslitakeppni Evrópumótsins. Þetta reyndist líka vera eina mark leiksins.

Markið kom eftir fyrirgjöf Nico Williams en lykilatriði var að Alvaro Morata skallaði boltann áfram á markteignum og sú snerting fipaði Calafiori sem fékk boltann í sig og hann fór í eigið mark.

Spánverjar tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitunum og sigur í riðlinum með þessum sigri. Þeir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína en Ítalir eru í öðru sæti með þrjú stig. Albanir og Króatar eru í neðstu sætunum með eitt stig hvort lið.

Englendingar komust yfir en áttu lítið skilið í 1-1 jafntefli á móti Dönum. Harry Kane skoraði fyrsta markið en Morten Hjulmand jafnaði fyrir Dana með þrumuskoti fyrir utan vítateiginn.

Serbar tryggðu sér 1-1 jafntefli á móti Slóvenum á dramatískan hátt þegar Luka Jovic jafnaði metin á fimmtu mínútu í uppbótatíma. Bakvörðurinn Zan Karnicnik hafði komið Slóvenum yfir.

Enska liðið hafði tryggt sig áfram með sigri en er í mjög góðum málum með fjögur stig. Danir og Slóvenar eru með tvö stig og Serbar eitt. Serbía og Danmörk spila hálfgerðan úrslitaleik um sæti í sextán liða úrslitum í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×