Fótbolti

Hakkarar trufla út­sendingar frá EM leikjum Pól­verja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var stutt gaman hjá Robert Lewandowski og félögum hans í pólska landsliðinu sem eru úr leik á EM eftir aðeins tvo leiki.
Það var stutt gaman hjá Robert Lewandowski og félögum hans í pólska landsliðinu sem eru úr leik á EM eftir aðeins tvo leiki. Getty/Alex Livesey

Er eitthvað meira pirrandi en truflanir verða þegar þú ert að horfa á mikilvægan fótboltaleik? Pólskir sjónvarpsáhorfendur eru örugglega orðnir mjög pirraðir á slíku.

Það er nefnilega ekki bara pólska landsliðið sem er í vandræðum á Evrópumótinu í fótbolta í Þýskalandi. TVP sjónvarpsstöðinni gengur líka einnig mjög illa að sýna leiki pólska liðsins í heimalandinu.

Í öðrum leiknum í röð tókst hökkurum að trufla útsendingu frá leik Póllands. Að þessu sinni var það leikur á móti Austurríki en þetta gerðist einnig í fyrsta leiknum á móti Hollandi.

„Við biðjumst afsökunar en tæknin var að stríða okkur í leik dagsins,“ sagði í yfirlýsingu frá TVP.

Það er talið að hakkararnir hafi notað svokallaða DDoS árás en þá ofhlaða þeir kerfið þar til að útsendingaþjónarnir gefa eftir og allt frýs.

Pólska landsliðið náði að jafna metin í 1-1 eftir að Austurríkismenn skoruðu snemma en Pólverjar töpuðu leiknum á endanum 3-1.

Fyrsti leikurinn tapaðist 2-1 á móti Hollandi og Pólverjar eru því með núll stig og þrjú mörk í mínus eftir tvo fyrstu leikina. Það þýðir að liðið er úr leik og þriðji og síðasta leikurinn skiptir engu máli.

Ráðherra tölvumála í Póllandi kenndi Rússum um árásina eftir fyrsta leikinn en TVP sjónvarpsstöðin sagði að sú árás hafi komið frá IP tölum í Póllandi. Það er enn ekkert vitað um hvaðan árásin í gær var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×