Enski boltinn

Vilja spila leik í ensku C-deildinni á banda­rískri grundu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tom Brady var magnaður íþróttamaður á sínum tíma.
Tom Brady var magnaður íþróttamaður á sínum tíma. Mike Egerton/Getty Images

Eigendur enska knattspyrnuliðsins Birmingham City hafa biðlað til forráðamanna ensku C-deildarinnar að heimaleikur þess við Hollywood-liðið Wrexham fari fram í Bandaríkjunum.

Bæði lið hafa verið í fréttum hérlendis undanfarna mánuði vegna eignarhalds. Hinn goðasagnakenndi leikstjórnandi Tom Brady kemur til að mynda að eignarhaldi Birmingham á meðan Ryan Reynolds og Rob McElhenney eru ástæða góðs gengis Wrexham sem hefur farið upp um tvær deildir á tveimur árum.

Brady og félagar í stjórn Birmingham geta ekki sagt það sama en liðið féll úr ensku B-deildinni á síðustu leiktíð. Leikur liðið því í ensku C-deildinni á komandi leiktíð, líkt og Wrexham.

Nú greinir Daily Mail frá því að eigendur Birmingham hafi biðlað til EFL, sem sér um rekstur ensku B til D-deildanna, um að spila leik liðanna í Bandaríkjunum.

Ekki kemur fram hvar í Bandaríkjunum yrði spilað en Daily Mail telur að það myndu talsvert fleiri mæta á leikinn heldur en ef hann yrði spilaður á St. Andews-vellinum í Birmingham en sá tekur tæplega 30 þúsund manns í sæti.

Daily Mail hefur sett sig í samband við Birmingham til að fá tillöguna staðfesta en ekkert svar hefur enn borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×