Innlent

Arnar Þór snýr sér að hlaðvarpsgerð

Jón Þór Stefánsson skrifar
 Arnar Þór Jónsson bauð sig fram til forseta í nýafstöðnum forsetakosningum.
 Arnar Þór Jónsson bauð sig fram til forseta í nýafstöðnum forsetakosningum.

Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, héraðsdómari og varaþingmaður, er byrjaður með hlaðvarp á efnisveitunni Brotkast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Frosta Logasyni, forsprakka Brotkasts, en einn þáttur með Arnari hefur þegar verið birtur á vef Brotkasts. Sá þáttur ber titilinn Hvernig náum við siðbót og endurnýjun á vettvangi stjórnmálanna?

Fram kemur að hann muni fjalla vítt og breitt um samtíman og þjóðmálin. Hann muni leitast við því að skoða viðfangsefni út frá fleiri en einni hlið með gagnrýna hugsun að leiðarljósi.

„Arnar vakti síðast töluverða athygli fyrir framboð sitt til forseta Íslands en til þessa hefur verið nokkuð óljóst hvað Arnar mun taka sér fyrir hendur í nánustu framtíð. Sem kunnugt er sagði Arnar starfi sínu sem héraðsdómari lausu til að geta tjáð sig með frjálsari hætti um þjóðfélagsmál, en hann hefur rætt mikið nauðsynlega siðbót og endurnýjun á vettvangi stjórnmálanna,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Arnari að markmið þáttanna sé að hvetja til frjórrar umræðu og frjálsrar skoðanamyndunar í anda virks lýðræðis.

Í kjölfar forsetakosninganna, þar sem Arnar hlaut fimm prósenta fylgi, sagðist hann vilja hvíla sig á Íslandi og vera að undirbúa brottflutning af landinu. Þá sagði hann tíma kominn á nýja hugmyndafræði eða jafnvel nýjan stjórnmálaflokk hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×