Fótbolti

Þjóð­verjar hæðast að Eng­lendingum: „Þessi ljón eru kettlingar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane hefur ekki fundið sig á EM.
Harry Kane hefur ekki fundið sig á EM. getty/Stu Forster

Það eru ekki bara enskir fjölmiðlar sem láta fótboltalandsliðið sitt fá það óþvegið heldur einnig kollegar þeirra í Evrópu.

England gerði markalaust jafntefli við Slóveníu í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í gær. Stigið dugði Englendingum til að vinna riðilinn en þeir hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir frammistöðu sína á mótinu.

Þýska blaðið Bild fór ekki neinum silkihönskum um enska liðið eftir leikinn gegn Slóveníu og talaði meðal annars um að ljónin, eins og enska landsliðið er jafnan kallað, væru eins og kettlingar.

Í umfjöllun Bild var athyglinni einnig beint að Gareth Southgate, þjálfara enska landsliðsins, og því velt upp hver leikáætlun hans væri eiginlega. Frammistaða Englendinga var einnig sögð skelfileg og að þeir hefðu ekki haft neina stjórn á leiknum.

Leikmenn enska liðsins sluppu ekki við gagnrýni Bild. Jude Bellingham var meðal annars sagður hafa verið mjög daufur og ólíkur sjálfum sér og að Phil Foden og Bukayo Saka hafi ekki haft mikil áhrif á leikinn. Conor Gallagher fékk einnig fyrir ferðina en í umsögn Bild segir að hann hafi verið algjörlega týndur í leiknum.

Sem fyrr sagði vann England C-riðilinn og er enn ósigrað á EM. Næsti leikur Englendinga verður í Gelsenkirchen á sunnudaginn. Andstæðingurinn verður annað hvort liðið sem endar í 3. sæti D- eða E-riðils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×