Enski boltinn

Í­huga að selja nafna­réttinn á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe og fyrirtæki hans INEOS leita nú allra leiða til að fjármagna endurbætur á heimavelli Manchester United.
Sir Jim Ratcliffe og fyrirtæki hans INEOS leita nú allra leiða til að fjármagna endurbætur á heimavelli Manchester United. Peter Byrne/Getty Images

Forráðamenn Manchester United íhuga að selja nafnaréttinn á heimavelli liðsins, Old Trafford, í von um að fá inn auknar tekjur svo hægt sé að uppfæra völlinn sem kominn er til ára sinna.

Eitt af því fyrsta sem Sir Jim Ratcliffe gerði eftir að hann varð minnihlutaeigandi Man United var að taka stöðuna á Old Trafford. Þetta glæsta mannvirki má muna sinn fífil fegurri enda varla króna verið sett í endurbætur undanfarin ár.

Ratcliffe vildi annað hvort ráðast í gríðarlegar endurbætur á vellinum eða hreinlega byggja nýjan. Völlurinn hefur talsvert sögulegt gildi fyrir stuðningsfólk Man United og því virðist það hafa orðið ofan á að betrumbæta völlinn.

Það mun kosta skildinginn og leitar Ratcliffe nú leiða til að fjármagna þá framkvæmd en félagið er einnig að ráðast í endurbætur á Carrington-æfingasvæðinu. Ein af hugmyndum Ratcliffe og félaga er að selja nafnarétt vallarins.

Leikvangurinn myndi áfram heita Old Trafford en mögulega yrði forskeyti bætt við líkt og Spotify Nývangur, heimavöllur Barcelona í Katalóníu.

Old Trafford var opnaður árið 1910 og hefur staðið í 114 ár. Leikvangurinn hefur farið í gegnum talsverðar breytingar og tekur nú alls 74,310 manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×