Remo Freuler og Ruben Vargas skoruðu mörk svissneska liðsins í leiknum í Berlín í gær. Ítalska liðið var heillum horfið og átti ekki mikla möguleika.
„Ég held að ég hafi aldrei séð svona lélegt ítalskt landslið,“ sagði Gary Lineker á BBC eftir leikinn.
Ítalir urðu Evrópumeistarar fyrir þremur árum en komust svo ekki á HM í Katar og komust með naumindum upp úr riðlakeppninni á EM í Þýskalandi.
„Frá því fyrir þremur árum er þetta ótrúlegt. Ég var í áfalli yfir því hversu slakir Ítalir voru. Þeir buðu ekki upp á neitt. Svisslendingar léku sér að þeim,“ sagði Alan Shearer.
„Þeir voru með yfirburði í leiknum og gáfu Ítali enga möguleika. Ítalía er svo veik fram á við. Þeir buðu ekki upp á neitt fyrir framan markið. Það var engin ógnun. Þeir voru svo lélegir, sérstaklega í framherjastöðunum.“
Luciano Spalletti tók við ítalska liðinu þegar Roberto Mancini fór til Sádí-Arabíu í fyrra. Hann hefur stýrt Ítölum í fjórtán leikjum. Sjö þeirra hafa unnist, þrír tapast og fjórir endað með jafntefli.