Fótbolti

Hand­tekinn á þaki vallarins þar sem hann ætlaði að ná góðum myndum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
21 árs gamall maður kom sér upp á þakið á Westfalenstadion á leik Þýskalands og Danmerkur.
21 árs gamall maður kom sér upp á þakið á Westfalenstadion á leik Þýskalands og Danmerkur. Rene Nijhuis/MB Media/Getty Images

Þýska sérsveitin var kölluð út á leik Þýskalands og Danmerkur í 16-liðar úrslitum Evrópumótsins vegna manns sem var búinn að koma sér upp á þak Westfalenstadion.

Þýskaland og Danmörk áttust við á Westfalenstadion, heimavelli Dortmund, í 16-liða úrslitum Evrópumótsins síðastliðinn þriðjudag þar sem Þjóðverjar höfðu betur, 2-0.

Gera þurfti hlé á leiknum á 35. mínútu vegna veðurs þar sem þrumur, eldingar, haglél og rigning settu strik í reikninginn. Snemma í síðari hálfleik sást svo maður uppi á þaki vallarins.

Maðurinn var svartklæddur, með hulið andlit og bakpoka á bakinu. Lögregla sá manninn klukkan 22:11 að staðartíma og eftir að lögregluþjónar, drónar og þyrla höfðu fylgst með honum í dágóða stund var hann handtekinn af þýsku sérsveitinni klukkan 23:44.

Maðurinn var færður í handjárn, en ekkert grunsamlegt fannst í bakpokanum. Hins vegar fannst myndavél í bakpokanum og sagði maðurinn, sem er 21 árs frá Osnabruck í norðvestur Þýskalandi, að hann hafi komið sér upp á þakið til að ná góðum myndum.

Lögreglan staðfesti svo að lokum að maðurinn væri ekki grunaður um að hafa komið sér upp á þakið í pólitískum tilgangi og að hann hafi áður tekið myndir af merkilegum byggingum úr mikilli hæð í Herne árið 2022 og Ulm í maí á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×