Enski boltinn

Caldent­ey fer frá Evrópu­meisturum Barcelona til Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skyttan Mariona Caldentey.
Skyttan Mariona Caldentey. Stuart MacFarlane/Getty Images

Hin 28 ára gamla Mariona Caldentey hefur ákveðið að færa sig um set eftir áratug hjá Barcelona. Eftir að vinna fernuna með liðinu á síðustu leiktíð hefur Caldentey samið við Arsenal.

Caldentey hefur svo sannarlega verið sigursæl á sínum ferli til þessa en hjá Barcelona vann hún alls 25 titla. Varð hún sex sinnum Spánarmeistari með liðinu og þrívegis Evrópumeistari. 

Alls skoraði hún 114 mörk í 302 leikjum og þá hefur hún skorað 26 mörk í 72 A-landsleikjum. Var hún hluti af landsliðshópi Spánar sem varð heimsmeistari á síðasta ári.

„Ég er svo glöð með að vera komin hingað. Þetta var rétti tíminn fyrir nýja áskorun og Arsenal er hinn fullkomni staður fyrir mig. Það sem Arsenal er að gera sem félag er magnað, bæði innan vallar sem utan,“ sagði Caldentey eftir að vistaskiptin voru staðfest.

„Það er ótrúlegt að sjá hvað félagið hefur gert utan vallar, með fjölda stuðningsfólks sem eltir það út um allt og öll þessi met sem hafa fallið. Ég get ekki beðið eftir að hefjast handa, vinna titla og skemmta stuðningsfólki okkar,“ bætti Caldentey við.

Talið er að Caldentey eigi að fylla skarð hollensku markadrottningarinnar Vivianne Miedema sem yfirgaf félagið nú í sumar.

Þá hefur Manchester United tilkynnt komu varnarmannsins Dominique Janssen. Sú er 29 ára gömul og á að baki 112 leiki með hollenska landslðinu. Var hún í liðinu þegar Holland varð Evrópumeistari 2017.

Janssen gerir samning til ársins 2027 með möguleika á árs framlengingu. Hin hollenska Janssen er þaulreynd eftir veru sína hjá Wolfsburg og Arsenal þar áður. Hjá Wolfsburg var hún hluti af liði sem vann efstu deild í Þýskalandi tvívegis og varð þrívegis bikarmeistari. 

Þá vann hún einnig titla með Arsenal þegar hún var þar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×