Erlent

Frakkar ganga til sögu­legra kosninga

Rafn Ágúst Ragnarsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Emmanuel Macron Frakklandsforseti kaus í París í morgun.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti kaus í París í morgun. EPA/Mohammed Badra

Frakkar ganga að kjörborðinu að nýju í dag þegar önnur umferð þingkosninga fer fram þar í landi. Búið er að opna kjörstaði. Kosningin gæti orðið söguleg en Þjóðfylking Marine Le Pen leiðir samkvæmt skoðanakönnunum. Flokkurinn var sterkastur eftir fyrri umferð, sem fram fór síðustu helgi, með 33 prósent atkvæða.

Fylgi Þjóðfylkingarinnar hefur dalað aðeins eftir því sem liðið hefur á vikuna og telja fæstir því að flokkurinn muni ná hreinum meirihluta á þinginu.

Spár benda til að flokkurinn muni fá 175 til 205 þingsæti af 577. Gangi það eftir tvöfaldar flokkurinn þingmenn sína, en nú eru þeir 88.

Miðjuflokkum Emmanuels Macron Frakklandsforseta er spáð 148 þingsætum og líklegt er talið að bandalag vinstri flokka fái milli 145 til 175 þingsæti.

Macron boðaði til þingkosninga eftir að Þjóðfylkingin vann stórsigur í Evrópuþingskosningum í síðasta mánuði.

„Í dag er hættan sú að meirihlutinn stýrist af öfgahægriöflum og það væri katastrófískt,“ segir Gabriel Attal, forsætisráðherra Frakklands í viðtali á föstudaginn en í Frakklandi er allur kosningaáróður stranglega bannaður daginn áður en kosið er.

Attal hefur lofað að sitja sem fastast í forsætisráðherrastólnum á meðan Macron og félagar ráða ráðum sínum. Breitt bandalag miðjuflokka gæti myndað ríkisstjórn og þar með útilokað jaðarflokkana til hægri og vinstri.

Samkvæmt franska innanríkisráðuneytinu höfðu 26,6 prósent kjósenda greitt atkvæði fyrir hádegi. Það er mesta kosningaþátttaka á sama tímabili síðan þingkosninganna þar í landi árið 1981.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×