Erlent

Viðsnúningur í frönsku þing­kosningunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Útgönguspánni var fagnað á götum Parísar.
Útgönguspánni var fagnað á götum Parísar. epa

Bandalag vinstriflokka í Frakklandi tekur forystu í útgönguspá sem birt var klukkan sex eftir að kjörstaðir lokuðu. Seinni umferð þingkosninga fór fram í dag þar sem margir kjósendur virðast ætla að kjósa taktískt til þess að koma í veg fyrir að hægri flokkurinn Franska þjóðfylkingin komist til valda. 

Fyrir kosningar hafði þjóðfylkingin, undir stjórn Marine le Pen og Jordan Bardella, farið með himinskautum í skoðanakönnunum. 

Þeir frönsku miðlar sem birtu útgönguspá klukkan sex virðast á einu máli um að bandalag vinstriflokka muni fá flest þeirra 577 þingsæta sem í boði eru. Vinstriflokkarnir virðast ætla að halda sínum hlut með 172 til 192 sæti. Flokkabandalag miðjuflokka forsetans Emmanuel Macron fær 150-170 samkvæmt spám og Þjóðfylkingin 132-152.

Svo virðist sem að margir kjósendur hafi kosið taktískt í kosningunum, að því er fram kemur í umfjöllun franskra miðla. 

Í frönsku þingkosningunum er kosið í 577 einmenningskjördæmum. Í aðdraganda seinni umferðar hafa þónokkrir frambjóðendur dregið framboð sitt til baka og vikið fyrir þeim frambjóðenda sem er líklegastur til þess að sigra þjóðfylkinguna. Hægriflokkurinn virðist ætla að gjalda fyrir þetta í kosningunum í dag.

Franska þjóðfylkingin vann stórsigur í fyrri umferð þingkosninga fyrir rúmri viku. Þjóðfylkingin hlaut 33 prósent atkvæða í fyrri umferð þingkosninganna, bandalag vinstriflokka hlaut 28 prósent atkvæða á meðan miðjuflokkar Emmanuels Macron hlutu 22 prósent.

Kjörsókn hefur verið með besta móti. Greint var frá því fyrr í dag að kjörsókn væri 59,7 prósent, sem er töluverð bæting frá síðustu kosningum árið 2022 þegar kjörsókn reyndist aðeins 38 prósent.

Jean-Luc Mélenchon er formaður stærsta flokksins innan bandalagsins.getty

Tengdar fréttir

Í höndum Macron að koma í veg fyrir stórsigur Le Pen

Franska þjóðfylkingin vann stórsigur í fyrri umferð þingkosninga í gær. Stjórnmálafræðingur segir þetta merki um þróun mála á Vesturlöndum. Íslendingur búsettur í Frakklandi segir það nú í höndum Macron Frakklandsforseta hvort vinstri- og miðflokkar sameinist gegn þjóðfylkingunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×