Það má með sanni segja að það sé allt að gerast á Borg í Grímsnesi í Grímsnes- og Grafningshreppi því þar eru hafnar miklar gatnagerðarframkvæmdir vegna nýju íbúðabyggðarinnar, sem verður glæsileg í alla staði gangi allt eftir.
Nöfnin á nýju götunum verða Miðtún, Lækjartún og Borgartún.
„Og þar er gert ráð fyrir íbúðum, allt að 57 íbúðum að öllum stærðum og gerðum. Allar tegundir húsa, fjölbýlishús, einbýlishús, raðhús og parhús, eitthvað fyrir alla,” segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.
Nýja hverfið er rétt við Biskupstungnabrautina, sem er hluti af Gullna hringnum en þar fara að meðaltali um 2.500 bílar á dag fram hjá Borg og í sveitarfélaginu eru 3.300 sumarhús,
„Við ákváðum bara að ríða á vaðið í þessu. Það er skylda okkar að skaffa lóðir og við viljum ekki skauta fram hjá því. Þetta er svo frábær staðsetning. Við erum 50 til 60 mínútur til Reykjavíkur og svona 20 mínútur á Selfoss,” segir Iða Marsibil.

En er allt klárt fyrir svona mikla uppbyggingu?
„Já, við viljum taka það skýrt fram að við erum skynsöm í þessu og þess vegna áfangaskiptum við þessu svæði hér, íbúðasvæðinu. Það er í rauninni komið rammaskipulag upp, sem getur farið undir 220 íbúðir af ýmsu tagi en við byrjum hér á 57 íbúðum og erum svo tilbúin að halda áfram í gatnagerðinni ef að þetta verður vinsælt,” segir sveitarstjórinn enn fremur.

Verslun og Þjónusta verður hluti af nýja hverfinu eins og Ragnar Guðmundsson, umsjónarmaður framkvæmda og veitna hjá sveitarfélaginu sýnir.
„Hér er sem sagt bensínstöð eða verslun og hraðhleðsla, sem á að geta tekið rútur, trukka og venjulega bíla, þannig að þarna verði bara allt til alls, einhver Þjónusta fyrir fólkið hérna en það er ótrúlega mikið af fólki, mörg þúsund manns allar helgar og umferðin hérna tvöfalt meiri en hjá Staðarskála hérna fram hjá,” segir Ragnar.

En af hverju ætti fólk að flytja í nýja hverfið á Borg?
„Það er bara gott að vera hérna svolítið út af fyrir sig, endilega kynnið ykkur málið,” segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.
