Ronaldo mistókst að skora á EM og var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína. Portúgal tapaði fyrir Frakklandi í vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitum EM á föstudaginn.
Engan bilbug virðist hins vegar vera að finna á hinum 39 ára Ronaldo sem gaf í skyn að hann gæti haldið áfram að spila fyrir portúgalska landsliðið í færslu á Instagram.
„Við vildum meira. Við áttum meira skilið. Fyrir okkur. Fyrir ykkur öll. Fyrir Portúgal,“ skrifaði Ronaldo.
„Við erum þakklát fyrir allt sem þið hafið gefið okkur og allt sem við höfum afrekað hingað til. Innan vallar sem utan. Ég er viss um að þessi arfleið verði heiðruð og það verði byggt ofan á hana, í sameiningu.“
Eftir leikinn gegn Frakklandi sagði Roberto Martínez, þjálfari Portúgals, að það væri of snemmt að segja hvort landsliðsferli Ronaldos væri lokið. Hann verður 41 árs þegar næsta stórmót, HM í Norður-Ameríku, fer fram.
Ronald, sem leikur með Al Nassr í Sádi-Arabíu, er markahæsti landsliðsmaður sögunnar en hann hefur skorað 130 mörk í 212 leikjum fyrir Portúgal. Fjórtán þeirra hafa komið á EM en Ronaldo er markahæstur í sögu keppninnar.