Íslenski boltinn

Hneykslaðir á fjar­veru Jasonar Daða: „Ekki sama lið án hans“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Daði Svanþórsson í leik með Breiðabliki á móti KA á dögunum.
Jason Daði Svanþórsson í leik með Breiðabliki á móti KA á dögunum. Vísir/Diego

Blikar töpuðu mikilvægum stigum á Ísafirði í Bestu deildinni í fótbolta um helgina þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Vestra. Stúkan ræddi fjarveru Jasonar Daða Svanþórssonar í leiknum.

Jason Daði er einn mikilvægasti leikmaður Breiðabliks en það lítur út fyrir að félagið sé að fara að selja hann í glugganum. Stúkan sagði Blika hafa saknað hans mikið fyrir vestan.

Var að kíkja á aðstæður í Grimsby

„Jason Daði tekur ekki þátt í þessum leik af því að hann er að kíkja á aðstæður erlendis, í Grimsby nánar til getið. Þá velti ég fyrir mér. Blikar vilja fara hægra megin og hafa gert það í nokkur ár af því að Jason Daði er aðalmaðurinn hægra megin,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar, og hélt áfram:

„Þeir gátu það ekki í þessum leik en hvernig stendur á því að Jason Daði hreinlega fái leyfi til að missa af leik til að kíkja á aðstæður erlendis,“ spurði Guðmundur.

„Fyrir leikinn á móti FH þá var Dóri (Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks) mjög hvass og ýtti öllum þessum orðrómum um Jason Daða til hliðar. Hann sagði bara: Hann er okkar leikmaður,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur í Stúkunni.

Mega ekkert við því að missa hann

„Ef hann er ykkar leikmaður og meðan hann er leikmaður Breiðabliks, af hverju er hann ekki að byrja þessa leiki alveg þangað það er búið að selja hann? Þeir mega ekkert við því að missa hann. Ekki einn einasta leik,“ sagði Albert.

„Þetta er ekki sama lið án hans,“ bætti Albert við eins og má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Umræða um fjarveru Jasons Daða



Fleiri fréttir

Sjá meira


×