Fótbolti

Ó­lík­legast að Eng­lendingar verði Evrópu­meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Walker, Jordan Pickford, Trent Alexander-Arnold og Ivan Toney fagna sigri enska liðsins í vítakeppninni í átta liða úrslitunum.
Kyle Walker, Jordan Pickford, Trent Alexander-Arnold og Ivan Toney fagna sigri enska liðsins í vítakeppninni í átta liða úrslitunum. Getty/Crystal Pix

Aðeins fjórar þjóðir eiga enn möguleika á því að verða Evrópumeistarar karla í knattspyrnu 2024 og á næstu tveimur dögum kemur það í ljós hvaða tvær þjóðir mætast í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Tölfræðingar Gracenote hafa notað tækifærið fyrir undanúrslitaleikina til að reikna út sigurlíkur þjóðanna fjögurra sem spila í kvöld eða annað kvöld.

Þar kemur í ljós að mestar líkur eru á því að Spánverjar verði Evrópumeistarar í fjórða sinn. Á því eru 34 prósent líkur. Spánn varð Evrópumeistari 1964, 2008 og 2012.

Næstmestar líkur eru á því að Frakkar verði Evrópumeistarar í þriðja sinn. Það eru taldar 25 prósent líkur á því. Frakkar urðu Evrópumeistarar 1974 og 2000.

Þar sem að Spánn og Frakkland mætast í undanúrslitunum má því samkvæmt þessu eiginlega líta á leik þeirra sem hálfgerðan úrslitaleik mótsins. Í hinum leiknum mætast Holland og England.

Það eru taldar 24 prósent líkur á því að Hollendingar verði Evrópumeistarar í fyrsta sinn í 36 ár. Þeir unnu sinn fyrsta og eina stóra titil sinn á EM í Þýskalandi 1988.

Englendingar reka lestina en aðeins eru taldar sautján prósent líkur á því að England verði Evrópumeistari í fyrsta sinn og að karlalið þjóðarinnar vinni þar með sinn fyrsta stóra titil í 58 ár.

Tölfræðingarnir á Opta reiknuðu líka út sigurlíkurnar hjá liðunum í undanúrslitunum og þar koma Englendingar aðeins betur út. 

Spánn og Frakkland eru þá bæði með þrjátíu prósent líkur á Evrópumeistaratitli en enska liðið er þar á undan því hollenska. Sigurlíkur Englendinga eru 23 prósent en Hollendinar eru aðeins með sextán prósent sigurlíkur hjá Opta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×