Fótbolti

Lamine Yamal sló met Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal sló met Pele í gærkvöldi. Pele var búinn að halda upp á sautján ára afmælið þegar hann skoraði á HM en ekki Yamal.
Lamine Yamal sló met Pele í gærkvöldi. Pele var búinn að halda upp á sautján ára afmælið þegar hann skoraði á HM en ekki Yamal. Getty

Spænska undrabarnið Lamine Yamal varð í gærkvöldi, ekki aðeins yngsti markaskorari í sögu Evrópumótsins, heldur einnig sá yngsti til að skora á stórmótum frá upphafi.

Yamal var aðeins sextán ára og 362 daga þegar hann skoraði stórkostlegt mark með langskoti í undanúrslitaleiknum á móti Frökkum í gær. Hann er sá fyrsti til að skora á HM eða EM áður en hann heldur upp á sautján ára afmælið sitt.

Með því sló hann met Brasilíumannsins Pele frá því á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 1958.

Pele var aðeins sautján ára og 239 daga þegar hann skoraði fyrir Brasilíu á HM fyrir 66 árum.

Pele átti þá ótrúlegt mót og skoraði sex mörk þegar Brasilíumenn urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn.

Yamal var að skora sitt fyrsta mark á EM í Þýskalandi en hann hefur auk þess gefið þrjár stoðsendingar á liðsfélaga sína. Hann er einn af þeim sem kemur til greina sem besti leikmaður keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×