Erlent

Macron hvetur til sam­stöðu en virðist úti­loka Mélenchon

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Macron er staddur á fundi Nató í Washington en opið bréf hans til þjóðarinnar rataði í fjölmiðla í gær.
Macron er staddur á fundi Nató í Washington en opið bréf hans til þjóðarinnar rataði í fjölmiðla í gær. AP/Mark Schiefelbein

Emmanuel Macron hefur ritað opið bréf til Frakka þar sem hann hvetur pólitíska leiðtoga landsins til að taka sig saman og mynda meirihlutabandalag þjóðinni til heilla.

Pólitísk pattstaða er uppi eftir langt í frá afgerandi úrslit þingkosninganna á dögunu. Marcon segir í bréfi sínu að ekkert stjórnmálaafl hafi náð hreinum meirihluta. Þannig sé nauðsynlegt að lýðræðislega sinnaðir flokkar, sem trúi á sjálfstæði Frakklands og Evrópusamvinnu eigi einlægt samtal um að mynda traustan meirihluta.

Erlendir miðlar hafa bent á að orð Macron virðast sniðin til að útiloka Þjóðfylkingu Marine Le Pen (RN) og Óbeygt Frakkland (LFI) Jean-Luc Mélenchon frá samstarfinu. LFI er hins vegar stærsti flokkurinn í Nýju Alþýðufylkingunni (NFP), sem hlaut meirihluta atkvæða í kosningunum.

Macron hefur beðið forsætisráðherrann Gabriel Attal um að sitja áfram þar til hægt verður að mynda nýja ríkisstjórn en NFP hefur gert skýra kröfu um að fá að velja næsta forsætisráðherra og framfylgja stefnumálum sínum.

Margir félagar Macron á miðjunni hafa hins vegar ekki myndu styðja ríkisstjórn leidda af NFP og myndu styðja vantraust gegn ríkisstjórn þar sem flokksmenn LFI ættu sæti. Sumir hafa kallað eftir samstarfi við hægriflokka á meðan aðrir vilja mynda breiðara bandalag, sem myndi þýða sundrun NFP.

Macron segir í bréfi sínu að stjórnmálamenn verði nú að láta hugmyndir og stefnu ráða för, ekki stöður og persónulegan metnað. Það myndi óhjákvæmilega taka tíma að komast að málamiðlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×